Innlent

Vel mætt á opið hús í Háaleitis- og Bústaðahverfi

Júlíus Vífill Ingvarsson, formaður Skipulagsráðs mætti á fundinn.
Júlíus Vífill Ingvarsson, formaður Skipulagsráðs mætti á fundinn.

Greiðari samgöngur innan hverfis fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, Bústaða- og Réttarholtsveg í stokk og göng og sundlaug við Seljaveg voru meðal áherslumála sem íbúar Háaleitis- og Bústaðahverfis settu fram í opnu húsi í gær um framtíðarskipulag hverfisins í tengslum við endurskoðun aðalskipulags Reykjavíkur.

Í tilkynningu segir að ágætis mæting hafi verið á opna húsið. „Tóku margir börnin með og tóku þau virkan þátt í hugmynda- og krakkasmiðjunum sem starfræktar voru samhliða umræðu- og vinnuhópum hinna fullorðnu. Sem fyrr kynnti Júlíus Vífill Ingvarsson, formaður skipulagsráðs, fyrst stuttlega þá vinnu sem nú fer fram við nýtt aðalskipulag og síðan útskýrðu Haraldur Sigurðsson, verkefnisstjóri aðalskipulagsins, og Ólöf Örvarsdóttir skipulagsstjóri nýja aðferðarfræði og vinnulag við aðalskipulagið."

Þá segir að fjörugar umræður hafi skapast í vinnuhópum sem m.a fjölluðu um skólamál, hjarta hverfisins, samgöngur, lífsgæði og útivistarmál. „Margar áhugaverðar hugmyndir komu þar fram og má m.a. nefna aðstöðu fyrir grænmetismarkað í hverfinu, betri samtengingu hverfishluta og greiðari samgöngur, t.d. með því að leggja Bústaðaveg í stokk og Réttarholtsveg í göng. Einnig voru settar fram hugmyndir um að nýta Fossvogsdal betur sem útivistarsvæði, koma upp sundlaug við Seljaveg og lífga upp á opin og græn svæði sem eru víða í hverfinu."

Opna húsið í Réttarholtsskóla var það sjöunda af tíu sem Skipulags- og byggingarsvið stendur fyrir í öllum hverfum borgarinnar vegna endurskoðunar aðalskipulags Reykjavíkur. Næsta opna hús verður í Breiðholtsskóla í Breiðholti, þann 19. nóvember næstkomandi kl. 17-18:30. Sjá nánar á www.adalskipulag.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×