Innlent

Óhóflegt vinnuálag getur ógnað fagmennsku

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Óhóflegt vinnuálag og skerðing á sí- og endurmenntun starfsfólks eru meðal þess sem ógnað getur fagmennsku, að mati formanns BHM.
Óhóflegt vinnuálag og skerðing á sí- og endurmenntun starfsfólks eru meðal þess sem ógnað getur fagmennsku, að mati formanns BHM. Mynd/Stefán Karlsson
Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður Bandalags háskólamanna, segir að erfitt sé að boða umtalsverðan niðurskurð hjá hinu opinbera og á sama tíma segja að þjónustan muni haldast óskert. Hún telur brýnt að ræða hvort það sé verjandi að hið opinbera haldi uppi þjónustu sem sé hætt að standa undir nafni.

„Það er okkar ábyrgð að fylgjast með því að fagfólki sé gert kleift að sinna því starfi sem því er skylt. Lög og siðareglur móta viðmið sem fagfólki ber að hlíta," segir Guðlaug. Óhóflegt vinnuálag og skerðing á sí- og endurmenntun starfsfólks eru meðal þess sem ógnað getur fagmennsku.

BHM og Stofnun stjórnsýslufræða HÍ standa fyrir málþingi á morgun sem ætlað er að vekja athygli á skyldum sérhæfðra fagstétta gagnvart skjólstæðingum, samfélaginu og sjálfum sér og mikilvægi þess að þeim sé gert kleift að rækja þessar skyldur á niðurskurðartímum. Aðhald í rekstri hins opinbera megi ekki verða til þess að draga úr gæðum sérhæfðrar þjónustu.

Guðlaug spyr hvort samfélagið þurfi að velta því fyrir sér hversu umfangsmikið velferðarkerfi það hafi efni á að reka. Ráðamenn hafi í langan tíma sagst ætla að spara en um leið að þjónustan muni ekki skerðast.

„Í raun er búið að spara svo lengi að maður veltir fyrir sér hvort við getum haldið því áfram án þess að marka línur um hvað þarf undan að láta," segir Guðlaug.

Hægt er að lesa nánar um málþingið - Höfum við efni á fagmennsku? - hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×