Viðskipti innlent

Höfðu aldrei heyrt um A-Holding

Karl Georg Sigurbjörnsson, við þingsetningu málsins í september.
Karl Georg Sigurbjörnsson, við þingsetningu málsins í september. MYND/Jón Hákon

Fimmenningarnir sem seldu stofnfjárhluti sína í Sparisjóði Hafnarfjarðar og Karl Georg Sigurbjörnsson lögmaður hafði milligöngu um að kaupa af þeim segjast aldrei hafa heyrt talað um A-Holding, dótturfélag Baugs, sem eignaðist hlutina og seldi síðar fyrir mun hærra verð. Ríkissaksóknari hefur ákært Karl Georg fyrir fjársvik en hann segist aðeins hafa í starfi sínu sem lögmaður verið í milligöngu á milli seljendanna og A-Holding.

Aðalmeðferð fer fram í málinu í dag og fyrir hádegi báru fimmenningarnir, sem Sigurður Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi fer fyrir, vitni. Þar kom fram að þeir hefðu ekki haft hugmynd um að þeir væru að selja A-Holding bréfin.

Þeir Sigurður G. Guðjónsson lögmaður, Pálmi Haraldsson, athafnamaður og Stefán Hilmarsson, fjármálastjóri Baugs hafa verið kallaðir til vitnis síðar í dag.

Karli Georgi er gefið að sök að hafa „hafa hagnýtt sér ranga hugmynd" Sigurðar Þórðarsonar, þáverandi ríkisendurskoðanda, um hámarksverð sem hægt var að fá fyrir stofnfjárbréf í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Sigurður var einn af stoffjáreigendum í sparisjóðnum og seldi ásamt fjórum öðrum hluti sína til dótturfélags Baugs fyrir 50 milljónir árið 2006.

Dótturfélag Baugs seldi síðan bréfin á 90 milljónir hvern skammt. Sigurður kærði Karl fyrir fjársvik með því að hafa svikið hann um mismunninn, 40 milljónir króna, en því hafnar Karl. Hann segist aðeins hafa annast þá samninga sem gerðir hefðu verið um kaupin. Verðið hafi verið það sama og allir aðrir sem seldu fengu.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×