Viðskipti innlent

Drake Capital Management keypti í Straumi

William Fall gaf skýrslu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
William Fall gaf skýrslu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Það var fjárfestingasjóðurinn Drake Capital Management sem keypti um 4,9% hlut í Straumi fjárfestingarbanka þann 17. ágúst árið 2007. Markaðsvirði hlutarins nam um 10,2 milljörðum króna, en viðskiptin fóru ekki fram á markaði heldur var hluturinn seldur til fjárfestisins í gegnum Landsbankann í Luxemburg.

Vilhjálmur Bjarnason stefndi bankanum vegna þessara viðskipta og taldi að hluturinn hefði verið seldur á undirverði. Þar með hefði verið brotin jafnræðisregla og Straumur hefði orðið af rúmum 300 milljónum króna. Vilhjálmur Bjarnason vildi vita hver hefði keypt hlutinn og spurði lögmaður hans þeirrar spurningar við aðalmeðferð málsins í dag. William Fall, forstjóri Straums, gaf það ekki upp fyrir rétti í dag hver hefði staðið á bak við kaupin, en eins og fyrr segir hefur fréttastofa heimild fyrir því að það hafi verið ameríski fjárfestingarsjóðurinn Drake Capital Management. Ástæðan fyrir því að ekki var upplýst um það hver kaupandinn var eru viðskipti sem Drake átti við Kaupþing á sama tíma.

Sé skoðaður hluthafalistinn í Straumi núna sést að City Corp er orðinn eigandi að 4,9% hlut í bankanum og hefur skráður hlutur Landsbankans lækkað sem því samsvarar. Fjármálaeftirlitinu er kunnugt um þessi viðskipti og mun því ekki aðhafast í málinu, samkvæmt upplýsingum fréttastofu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×