Viðskipti innlent

Hættir við kaup á útibúaneti SPRON

Sigríður Mogensen skrifar

MP banki hefur hætt við kaup sín á útibúaneti SPRON og ríkið verður því af átta hundruð milljónum króna. Margeir Pétursson stjórnarformaður fyrirtækisins segir Nýja Kaupþing hafa unnið orrustuna um SPRON.

Tilkynnt var um samkomulag um kaup MP banka á netbankanum og útibúaneti Spron í lok mars. Samkomulagið var gert með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins en engin niðurstaða hefur enn borist frá þeim.

„Við treystum okkur ekki til þess að bíða lengur og getum gert þetta sjálfir og sparað þannig kaupverðið," segir Margeir.

„Við getum því miður ekki haldið þessum leik áfram. Nýja Kaupþingi tókst að tefja málið og hafði betur í þessari orrustu. Við munum koma inn á viðskiptabankamarkaðinn síðar, það er engin spurning."

Margeir segir ennfremur að Nýja Kaupþing hafi mótmælt því að viðskiptavinir bankans gætu flutt sig yfir til þeirra.

„Þeir óttuðust að skriða af viðskiptavinum færi yfir til okkar og hafa greinilega fengið Seðlabanka Íslands í lið með sér, það hefur ekki verið vandamál með Fjármálaeftirlitð. Svona fór þetta því miður. Nýja Kaupþingi tókst að bægja frá keppinauti í bili."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×