Viðskipti innlent

Slæm skilaboð til fjárfesta

Forstjóri HB Granda segir að ef hætt verði við arðgreiðslu til eigenda væru það skilaboð til fjárfesta um að varasamt væri að setja áhættufé í atvinnurekstur. Forstjórinn fundar með forvígismönnum Eflingar um hvernig umbuna megi starfsfólki sem hefur samþykkt að fresta launahækkunum.

Stjórn HB Granda samþykkti í síðustu viku að leggja það til við hluthafafund að greiddar verið hundrað áttatíu og sex milljónir króna í arð til eigenda. Á sama tíma hafa launahækkanir starfsmanna verið frystar samkvæmt samningi ASÍ og Samtaka atvinnulífsins.

Verkalýðshreyfingin hefur krafist þess að hætt verði við arðgreiðslur eða þá menn standi við umsamdar launahækkanir.

Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri HB Granda, segir að tillaga stjórnar standi en það sé lokaákvörðun hluthafafundar þiðja apríl hvort arðurinn verði greiddur.

„Þetta er mjög hófsöm ávöxtun á það eigið fé sem bundið er í fyrirtækinu. Og menn verða að átta sig á því að ef það er bannorð að borga út þó ekki sé nema ofurlita ávöxtun á eigið fé þá eru það náttúrulega skilaboð til allra fjárfesta um að draga sig út úr atvinnurekstri og hætta að setja áhættufé í atvinnurekstur, og þar með verður lánsfé á þessum gríðarlega háu vöxtum sem bankarnir eru að lána núna það verður eina fjármagn sem menn hafa aðgang að," segir Eggert.

Eggert Benedikt fundar með fulltrúum Eflingar á morgun vegna málsins en flestir starfsmenn HB Granda tilheyra því félagi.

Í fréttum Stöðvar tvö í gærkvöldi sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ að stjórnendur HB Granda beittu blekkingum til að kreista fé út úr fyrirtækinu og gerði athugasemdir við verðlagningu framtíðarkvóta. Eggert Benedikt segir þetta af og frá. Farið hafi verið eftir sömu forskrift og áður og alþjóðlegum reikningsskilastöðlum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×