Viðskipti innlent

Samruni GGE og HS Orku heimilaður með skilyrðum

Samkeppniseftirlitið mun heimilað samruna Geysis Green Energy (GGE) og HS Orku með nokkrum skilyrðum. Meðal þeirra er að GGE tryggi að rekstrarlegur og stjórnunarlegur aðskilnaður verði milli Jarðborana, dótturfélags GGE og HS Orku. Einng skal tryggt að viðskipti milli þessarar aðila fari fram líkt og um óskylda aðila sé að ræða.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins segir m.a. að kaup GGE á 34% hlut í HS Orku þannig að heildarhlutur félagsins nemi 66% hlutafjár, feli í sér samruna. Telur stofnunin ekki þörf á að ógilda samrunann að uppfylltum skilyrðunum. Fjallað er um málið á heimasíðu eftilitsins.

Í kjölfar athugunar Samkreppniseftirlitsins hafa samrunaaðilar fallist á að binda samrunann tilteknum skilyrðum. Lúta þessi skilyrði að stjórnunarlegum aðskilnaði Jarðboranna og HS orku ásamt áskilið er að viðskipti á milli félaganna skuli fara fram á líkt og ótengda aðila væri að ræða. Þá eru lagðar hömlur við því að upplýsingum sé miðlað á milli félaganna að því marki sem slíkt er ekki nauðsynlegt vegna viðskipta félaganna.

Er þessum skilyrðum ætlað að vinna gegn því að HS orka og Jarðboranir hygli hvort öðru með óeðlilegum hætti og skapi þar með samkeppnishömlur á þeim mörkuðum sem þau fyrirtæki starfa.

Samkeppniseftirlitið telur að skilyrðin séu nægjanleg til þess að eyða þeim samkeppnislegu vandamálum sem ella hefðu skapast með samruna þessum, að því er segir í niðurstöðum eftirlitsins.

Skilyrðin eru m.a. eftirfarandi: Geysir Green Energy skal tryggja að rekstrarlegur og stjórnunarlegur aðskilnaður sé milli Jarðborana hf. annars vegar og HS orku hins vegar. Skulu bæði félögin rekin sem sjálfstæðir lögaðilar. Skulu sömu aðilar ekki sitja í stjórn Jarðborana og HS orku. Hið sama gildir um þá sem eru makar umræddra aðila, skyldir þeim eða mægðir í beinan legg eða systkini þeirra.

Geysir Green Energy skal tryggja að HS orka, dótturfélög og önnur tengd félög njóti ekki betri viðskiptakjara hjá Jarðborunum en keppinautar félaganna gera og að viðskiptavinum Jarðborana sé ekki mismunað á annan hátt, t.d. með ólíkri upplýsingamiðlun og ómálefnalegum samningsákvæðum og -kjörum. Skal farið með viðskipti Jarðborana og HS orku líkt og viðskipti á milli ótengdra aðila.

Geysir Green Energy skal tryggja að engar upplýsingar um starfsemi HS orku eða Jarðborana berist á milli félaganna aðrar en þær sem nauðsyn ber til vegna beinna viðskipta félaganna. Skal þess jafnframt gætt að upplýsingum sem Jarðborunum kunna að verða látnar í té af keppinautum HS orku sé haldið leyndum fyrir Geysi Green Energy og HS orku.

 

Stjórnarmenn og starfsmenn Geysir Green Energy og Jarðboranna skulu undirrita yfirlýsingu um þagnarskyldu og trúnað þar að lútandi. Afrit þessara yfirlýsinga skulu send Samkeppniseftirlitinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×