Viðskipti innlent

Gjaldþrot Seðlabankans vegur þungt

Vextir og verðbætur af skuld ríkissjóðs vegna gjaldþrots Seðlabankans samsvara öllum þeim skattahækkunum sem boðaðar hafa verið á næsta ári að sögn Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Hún segir að ef Icesave frumvarpið verði fellt muni það tefja endurreisn efnahagslífsins.

Þriðja og síðasta umræða um Icesave frumvarp ríkisstjórnarinnar hófst í gær en 20 voru á mælendaskrá þegar fundi var frestað um klukkan ellefu í gærkvöldi.

Ákveðið var á fundi forseta Alþingis með þingflokksformönnum í gærkvöldi að ganga til atkvæða um frumvarpið á morgun. Þá verða einnig greidd atkvæði um breytingartillögu Péturs Blöndal, þingmanns Sjálfstæðisflokks, en þar er lagt til að Icesave málið verði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir nauðsynlegt að ljúka málinu. „Það er margt í húfi og mér finnst fólk ræða of lítið um það hvað hér muni ske ef við samþykkjum ekki þetta mál. Það mun tefja alla okkar endurreisn í efnahagslífinu á hvaða sviði sem er þannig að það er lang hagstæðast fyrir íslenska þjóð að þessu máli verði lokið."

Jóhanna bendir á þjóðin þurfi að taka á sig stærri skuldbindingar en Icesave. „Þar er til dæmis málefni Seðlabankans og skuldir sem við þurfum að greiða vegna þess hvernig þar var haldið að málum sem er meiri skuld en Icesave skuldin," segir Jóhanna. Vextir og verðtrygging af þeirri skuld samsvari þeim skattahækkunum sem stjórnvöld verði því miður að fara í núna.

Gjaldþrot Seðlabankans kostar ríkissjóð um 400 milljarða króna en boðaðar skattahækkanir á næsta ári nema um 45 milljörðum króna.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×