Viðskipti innlent

Tuttugu gjaldeyrismál til skoðunar hjá FME

Gunnar Andersen Stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins segir rannsókn á brotum á gjaldeyrishöftum mjög flókna enda liggi slóð undaskotanna víða.Fréttablaðið/Stefán
Gunnar Andersen Stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins segir rannsókn á brotum á gjaldeyrishöftum mjög flókna enda liggi slóð undaskotanna víða.Fréttablaðið/Stefán

„Við erum að skoða fjölmörg mál. Umfangið hefur margfaldast í rannsókn okkar," segir Gunnar Andersen, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins. Hann staðfestir að eftirlitið sé nú með í kringum tuttugu mál til skoðunar vegna brota á gjaldeyrislögum.

Brotin tengjast bæði fyrirtækjum í útflutningi og annars konar milliríkjaviðskiptum.

Alþingi samþykkti gjaldeyrishöft Seðlabankans, sem meðal annars fólu í sér skilaskyldu á gjaldeyri, í enda nóvember í fyrra eftir hrun krónunnar og var með þeim vonast til að styrkja gengið. Það hefur ekki gengið eftir, svo sem vegna brota á skilaskyldu gjaldeyris. Um þrjátíu fyrirtæki eru með undanþágu frá gjaldeyrislögunum.

Seðlabankinn hefur fylgst náið með því hvort farið sé eftir gjaldeyrislögunum og sent þau mál til FME sem talin eru brjóta í bága við lögin.

Eftirlit með lögunum hefur verið hert verulega frá í fyrra. Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur margítrekað að veikt gengi standi í vegi fyrir lækkun stýrivaxta. Þeir hafa staðið í tólf prósentum frá í júní í sumar.

Fréttablaðið greindi í vor og sumar frá því að einhver fyrirtækjanna sem í hlut eigi hafi notað tekjur í erlendum gjaldeyri til kaupa á krónum á aflandsmarkaði og hagnast á gengismuni þar sem gengi krónunnar hefur alla jafna verið mun lægra erlendis en hér. Í einhverjum tilvikum hafa fyrirtækin farið eftir skilaskyldu og sent krónurnar heim að gjaldeyrisviðskiptum loknum. Mun minni gjaldeyrir skilar sér því til landsins vegna milliríkjaviðskipta en ella.

Gunnar segir undanskot hjá gjaldeyrishöftum Seðlabankans hlaupa á allt frá nokkrum milljónum króna til tugmilljóna. Ströng viðurlög eru vegna brota á gjaldeyrishöftunum. Sektargreiðslur einstaklinga geta numið allt að tuttugu milljónum króna en fyrirtækja allt að 75 milljóna.

Eftirlitið var með átta brot í skoðun um mitt ár og hefur þeim fjölgað mjög síðan þá. Gunnar segir sum þeirra tengjast.

„Málin eru mjög flókin. Slóðin liggur þvers og kruss og leggir þeirra farið í gegnum marga milliliði erlendis. Þetta er mjög erfitt," segir hann en bætir við að vænta megi fyrstu niðurstaðna á næstu vikum. jonab@frettabladid.isw
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×