Gordon Brown, forsætisráðherra Breta sagði í fyrirspurnatíma á breska þinginu í gærkvöldi að stjórnvöld þar í landi væru í viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hversu hratt Íslendingar muni greiða til baka það tjón sem þeir eru ábyrgir fyrir í Bretlandi.
Brown lenti í mikilli orrahríð í fyrirspurnartímanum en þingmenn sóttu hart að honum varðandi Christie spítalann í Manchester sem tapaði sex milljónum punda við fall íslensku bankanna. Brown var sakaður um að standa í vegi fyrir því að spítalinn gæti endurheimt fé sitt. Ráðherrann sagðist deila áhyggjum þingmanna en benti á að margir aðrir hefðu orðið fyrir tjóni og að nauðsynlegt væri að líta á málin í heild sinni.
„Mikilvægast er að íslensk stjórnvöld borgi," sagði Brown. „Þessvegna erum við í viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og önnur yfirvöld um hversu hratt Ísland mun borga til baka af því tjóni sem landið er ábyrgt fyrir."