Viðskipti innlent

Dollarinn hefur lækkað nokkuð gagnvart krónunni

Bandaríkjadollar hefur lækkað um tæpar 3 kr. á innlendum gjaldeyrismarkaði undanfarnar tvær vikur. Á sama tíma hefur verð evru hækkað um 2 kr. Gengi evru gagnvart dollara hefur hækkað mikið undanfarið og náði í morgun sínu hæsta gildi undanfarið ár, þegar evran var seld á 1,477 dollara.

 

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að lækkun dollarans á alþjóðlegum mörkuðum tengist minnkandi áhættufælni fjárfesta samfara því að vísbendingum fjölgar um að botni kreppunnar sem skekið hefur heimsbyggðina undanfarin misseri sé nú náð. Hækkandi verð á hlutabréfum og hrávöru á heimsvísu á sér sömu rætur og hefur blásið enn frekari vindi í segl áhættusækinna fjárfesta.

 

Þessi þróun endurspeglast í áhættukvörðum á borð við skuldatryggingaálag, sem hefur almennt lækkað verulega undanfarið. Til dæmis má nefna að ITRAXX Europe vísitalan, sem mælir skuldatryggingaálag stórra evrópskra fyrirtækja, náði í gær sínu lægsta gildi frá júní 2008.

 

Þess má raunar geta að samkvæmt Bloomberg var skuldatryggingaálag á íslenska ríkið í gær 378 punktar, (er komið í 373 punkta á hádegi, innsk. blm). Er álagið þar með loks orðið lægra en það var síðustu daga fyrir tilkynningu Seðlabankans um áformaða yfirtöku Glitnis fyrir tæpu ári síðan, en í kjölfar þeirrar tilkynningar tvöfaldaðist skuldatryggingaálag á ríkissjóð á fáeinum dögum.



Undanfarna fimm mánuði hefur gengi Bandaríkjadollara gagnvart krónu hreyfst mun minna en gengi evru gagnvart krónunni. Frá miðjum apríl hefur dollarinn þannig lækkað úr 127,5 kr. í 123,5 kr. þótt sveiflur hafi verið nokkrar í millitíðinni. Verð evru í krónum hefur hins vegar hækkað úr 167,5 kr. í 181,5 kr., eða um 8%, á sama tíma.

 

Greinendur á erlendum mörkuðum eru margir hverjir þeirrar skoðunar að dollarinn muni veikjast frekar gagnvart helstu gjaldmiðlum á næstunni. Reyndar er sú athyglisverða staða komin upp að dollarinn, sem til skamms tíma var afar vinsæl fjárfestingarmynt fyrir vaxtamunarviðskipti fjármögnuð í japönsku jeni, er nú sjálfur orðinn vinsæl fjármögnunarmynt fyrir vaxtamunarviðskipti þar sem ávaxtað er í hávaxtamyntum á borð við brasilíska realinn og s-afríska randið.

 

Fjárflæði vegna þessara viðskipta og minni þörf fjárfesta fyrir skjólið af stærstu forðamynt heims eru einmitt helstu áhrifaþættir á lækkun dollarans undanfarið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×