Viðskipti innlent

Rangt að Coca-Cola hafi haft í hótunum við Nýja Kaupþing

Þorsteinn M. Jónsson.
Þorsteinn M. Jónsson.
Þorsteinn M. Jónsson stjórnarformaður Vífilfells segir það rangt að til standi að afskrifa skuldir sem tengjast fyrirtækinu eða eignarhaldi á því. Hann segir rekstur Vífilfells vera í góðu horfi sem fyrr, þó hrun íslensk efnahagslífs hafi að sjálfsögðu sett sitt mark á félagið og eiganda þess.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Þorsteinn sendir frá sér vegna umfjöllunar fréttastofu Rúv í gærkvöldi,og í fréttaauka sem fylgdi í kjölfarið. Vísir birti frétt í gærkvöldi upp úr umræddri frétt.

„Það er rangt að til standi að afskrifa skuldir sem tengjast Vífilfelli eða eignarhaldi á því. Síðastliðnar vikur hafa átt sér stað uppbyggilegar viðræður við Nýja Kaupþing sem miða að fullum efndum allra skulda við bankann sem tengjast Vífilfelli og eignarhaldi á því. Rekstur Vífilfells er í góðu horfi sem fyrr, en hrun íslensks efnahagslífs hefur að sjálfsögðu sett sitt mark á félagið og eigenda þess," segir Þorsteinn í yfirlýsingunni.

Hann segir það ennfremur alrangt að fulltrúar Coca-Cola fyrirtækisins hafi haft í hótunum við Nýja Kaupþing eins og haldið var fram af ríkissjónvarpinu. Hann segir fulltrúa Coca-Cola hafa komið að viðræðum við Nýja Kaupþing og lagt gott eitt til.

„Leiðarljós allra aðila, eigenda Vífilfells, fulltrúa Coca-Cola, og Nýja Kaupþings, er að tryggja áframhaldandi farsælan rekstur Vífilfells og þar með störf á þriðja hundrað starfsmanna fyrirtækisins.Það er harmað að mál skuli sett fram með þeim hætti sem gert var af fréttastofu RÚV í gær, sérstaklega í ljósi þess að ofangreindar staðreyndir höfðu verið skýrðar út fyrir fréttamanni RÚV," segir Þorsteinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×