Innlent

Botn í mál Baldurs eftir hádegið

Framhald mála Baldurs Guðlaugssonar, sem gegnir starfi ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu, ræðst eftir hádegið í dag.

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, sagði þetta eftir ríkisstjórnarfund, en vildi ekki greina fjölmiðlum frá málinu frekar.

Fréttastofa Stöðvar 2 greindi frá því fyrir um ári, að Baldur hefði selt hlutabréf sín í Landsbankanum, fyrir hrun, en eftir að hann átti fund með Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, um Icesave reikningana. Baldur hefur ítrekað haldið því fram að erfið staða Landsbankans hafi ekki verið rædd á fundinum.

Eftir því sem næst verður komist hljóp söluverðmæti Landabankabréfa Baldurs á hundruðum milljóna króna. Þessi viðskipti hans eru til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara.

Baldur var skipaður ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu fyrir fjórum árum, en skipunartími hans rennur út eftir tæpt ár. Hann var sendur í leyfi frá ráðuneytinu þegar minnihlutastjórn Samfylkingarinnar og Vinstri-grænna, með stuðningi Framsóknarflokksins, tók við völdum snemma á árinu. Gert var ráð fyrir því að Baldur sinnti störfum ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins til áramóta, en þá rennur út leyfi hans hjá fjármálaráðuneytinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×