Viðskipti innlent

OECD: Frysta eða lækka laun opinberra starfsmanna

Meðal þeirra atriði sem OECD ræðir um í nýrri skýrslu sinni um Ísland er að hin mikla raunhækkun launa meðal opinbera starfsmanna á undan förnum árum þurfi nú að ganga til baka. OECD mælir með því að launin verði fryst eða lækkuð sem liður í niðurskurðaráformum ríkisstjórnarinnar.

Í skýrslunni segir að raunhækkun launa opinberra starfsmanna hafi verið 2,7% að meðaltali á ári tímabilið 2002 til 2007. „Launataxtar hins opinbera nutu góðs af því á undanförnum árum að fjármálageirinn blés út og jók þar með eftirspurnina eftir hæfu starfsfólki," segir í skýrslunni.

Þar er síðan nefnt til sögunnar að launagreiðslur og launatengd gjöld séu hátt hlutfall af útgjöldum ríkissjóðs. Með það í huga myndi..."frysting eða jafnvel lækkun leiða til verulegs samdráttar í útgjöldum stjórnvalda, að minnsta kosti 2009."

Síðan segir að þar sem flestir opinberir starfsmenn séu ekki í hættu á að missa vinnu sína ættu launataxtar þeirra allavega að hækka minna en launataxtarnir í einkageiranum..."að minnsta kosti þar til efnahagsáformunum hafi verið náð."

Ennfremur segir að hið sama eigi við um opinberar framkvæmdir. Þær jukust að meðaltali um 12% á ári á fyrrgreindu tímabili og það ætti að draga úr þeim eins og kostur er. „Til að ná þessu marki ætti ríkisstjórnin, eins og áformað er, að setja stopp á allar framkvæmdir sem ekki teljast bráðnauðsynlegar."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×