Viðskipti innlent

Landsbankinn styrkir fjármálaráðgjöf til fólks af erlendum uppruna

Frá undirritun samstarfssamnings Alþjóðahúss og Landsbankans. Frá vinstri: Katla Þorsteinsdóttir, stjórnarformaður Alþjóðahúss, Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Alþjóðahúss og Viggó Ásgeirsson, markaðsstjóri Landsbankans.
Frá undirritun samstarfssamnings Alþjóðahúss og Landsbankans. Frá vinstri: Katla Þorsteinsdóttir, stjórnarformaður Alþjóðahúss, Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Alþjóðahúss og Viggó Ásgeirsson, markaðsstjóri Landsbankans.

Alþjóðahús og Landsbankinn hafa tekið saman höndum um að efla fjármálaráðgjöf til fólks af erlendum uppruna vegna sérstaks ástands í efnahagsmálum.

Í tilkynningu frá Landsbankanum segir að markmiðið með þessu sé að veita markvissa ráðgjöf til skjólstæðinga Alþjóðahúss sem eru í greiðsluerfiðleikum. Verkefnið sé liður í víðtækari samstarfssamningi sem Landsbankinn og Alþjóðahús hafa gert með sér.

Þá segir að Landsbankinn hafi átt í góðu samstarfi við Alþjóðahús síðustu ár og verið bakhjarl ýmissa verkefna á vegum Alþjóðahúss. Ákveðið hafi verið að endurnýja samstarfið á nýjum grunni með fjármálaráðgjöf í öndvegi.

Landsbankinn mun einnig styrkja Alþjóðahús með fjárframlagi svo unnt sé að halda uppi markvissri ráðgjafastarfsemi í höfuðstöðvum Alþjóðahúss. Starfsmenn Landsbankans munu veita ráðgjöfum Alþjóðahúss aðstoð og sömuleiðis munu starfsmenn bankans eiga kost á að sitja námskeið á vegum Alþjóðahúss.

„Á síðustu mánuðum hefur beiðnum um fjármálaráðgjöf fjölgað mikið hjá okkur í Alþjóðahúsi og því er það mjög mikilvægt að fá stuðning Landsbankans til að geta annað eftirspurn," segir Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Alþjóðahúss.

„Við höfum átt gott samstarf við bankann í gegnum tíðina og það er tímanna tákn að sérstakt átak í fjármálaráðgjöf verði rauði þráðurinn í samstarfinu að þessu sinni."

Í tilkynningunni segir ennfremur að Landsbankinn muni styrkja verkefni Alþjóðahúss til að auka fjölmenningarfærni ungs fólks og vinna kennsluefni um fordómafræðslu.

Markmiðið sé að ná til barna á grunnskólaaldri, unglinga og fullorðinna, með kennsluefni um fordóma, umburðarlyndi og fjölmenningu.

Leiðbeinendur á vegum Alþjóðahúss munu heimsækja nemendur í efri bekkjum grunnskóla og vekja nemendur til umhugsunar um kynþáttafordóma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×