Viðskipti innlent

Ísland með fjórðu hæstu vexti í heimi

Hagfræðideild Landsbankans hefur tekið saman uplýsingar yfir stýrivexti í fjölmörgum löndum heims og sést þar að þótt vextir séu vissulega háir á Íslandi eru til lönd þar sem vextir eru enn hærri. Ísland er raunar með fjórðu hæstu stýrivexti í heiminum.

Í Hagsjá hagfræðideildarinnar segir að samkvæmt upplýsingum frá Bloomberg fréttaveitunni eru stýrivextir hæstir í Venesúela eða 19,10% en lægstir í Japan eða 0,10%. Næstu lönd á eftir Venesúela eru svo Pakistan og Líbanon, bæði með 13% og Ísland með 12% stýrivexti.

Þetta samræmist ágætlega verðbólgu í viðkomandi löndum en í því fyrrnefnda hefur verðlag hækkað um 28,8% undanfarna tólf mánuði. Síðustu tólf mánuði hefur hins vegar verið 2,2% verðhjöðnun í Japan.

Í Hagsjánni segir að í umræðum um hátt vaxtastig hér á landi gleymist oft að taka tillit til þess hversu há verðbólgan er. Ef þess er freistað að meta raunstýrivexti vandast málið nokkuð þar sem verðbólga er mæld með ýmsum hætti eftir löndum.

Efnahags- og framfarastofnunin OECD tekur saman samræmda vísitölu neysluverðs sem auðveldar samanburð milli landa. Sé hún notuð til þess að meta raunstýrivexti hvers mánaðar í tilteknu landi má fá grófa mynd af raunstýrivöxtum í viðkomandi landi. Á þann mælikvarða eru raunstýrivextir á Íslandi 1%. Þetta er á svipuðu róli og vexirnir eru í Þýskalandi sem er með tæplega eitt prósent raunstýrivexti og á Evrusvæðinu þar sem vextir þessir eru um 1,5%.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×