Viðskipti innlent

Nokkrir mikilvægir hagvísar birtir í vikunni

Nokkrir mikilvægir hagvísar verða birtir nú í vikunni auk þess sem peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands mun taka ákvörðun um stýrivexti næstkomandi fimmtudag.

Greining Íslandsbanka birtir yfirlit yfir hagvísana í Morgunkorni sínu. Eins og áður hefur komi9ð fram telur greiningin að peningastefnunefnd ákveði að lækka stýrivexti bankans næstkomandi fimmtudag um 0,5-1,0 prósentustig, þ.e. úr 12% niður í 11,0-11,5% og lækka innlánsvexti bankans um 0,25-0,50 prósentustig, þ.e. úr 9,5% í 9,0-9,25%.

Í dag mun fjármálaráðuneytið væntanlega birta greiðsluafkomu ríkissjóðs fyrir fyrstu níu mánuði ársins sem átti að liggja fyrir í síðustu viku, en útgáfu hennar var frestað. Á morgun mun Hagstofan birta tölur um endurskoðun á ráðstöfunartekjum heimilageirans á árunum 2000-2007 svo og gistinætur og gestakomur á hótelum í september.

Í ágústmánuði náði fjöldi gistinátta í fyrsta sinn á árinu að skríða fram úr fjölda þeirra árið 2008, eða úr 190.500 í 205.100, en þeim hafði fjölgað um 8% í ágústmánuði frá sama tíma árið á undan. Þessi aukning í ágústmánuði endurspeglar þá 10% fjölgun sem varð á gistinóttum erlendra ríkisborgara enda hafði gistinóttum Íslendinga fækkað um 6%.

Þessar tölur komu ekki á óvart þar sem met var slegið í fjölda erlendra ferðamanna í ágúst, en þeim hafði fjölgað um tæp 10% frá sama mánuði fyrir ári sem þá var met.

Í þessu sambandi má hér nefna að Ferðmálastofa mun einnig birta tölur í lok vikunnar um fjölda erlendra gesta í október. Í september fækkaði erlendum ferðamönnum um rúm 3% frá sama tíma í fyrra, en þrátt fyrir þessa fækkun var þetta annar stærsti septembermánuður frá upphafi talningar.

Virðist því íslensk ferðaþjónusta njóta góðs af lágu gengi krónunnar og benda ýmsar tölur til þess, eins og tölur um kortaveltu, að erlendir ferðamenn sem leggja leið sína hingað til lands geri mun betur við sig en undanfarin ár.

Á miðvikudag mun Seðlabankinn birta tölur um krónumarkað og gjaldeyrismarkað í október, auk þess að birta útreikning á raungengi krónunnar. Í september hækkaði raungengi íslensku krónunnar um 1,2% frá fyrri mánuði á mælikvarði hlutfallslegs verðlags. Hækkunin kom bæði vegna þess að nafngengi krónunnar hækkaði um 0,5% og vegna þess að verðbólgan hér á landi var umfram það sem hún var í okkar helstu nágrannalöndum.

Frá því í upphafi síðastliðins árs hafði raungengi krónunnar hins vegar lækkað umtalsvert samhliða gengislækkun krónunnar og er það afar lágt í sögulegu samhengi.

Á miðvikudag mun Hagstofan birta bráðabirgðatölur um vöruskipti við útlönd. Á fyrstu níu mánuðum ársins hefur mikill samdráttur verið í innflutningi sem er grundvöllur þess viðsnúnings sem varð á vöruskiptum við útlönd á tímabilinu, en vöruútflutningur hefur átt undir högg að sækja.

Í september voru vöruskiptin við útlönd hagstæð um 3,1 milljarða kr. Vöruinnflutningur reyndist í meira lagi miðað við undanfarna mánuði, og voru alls fluttar inn vörur fyrir 40,6 milljarða kr í september. Vöruútflutningur var hins vegar á svipuðu róli og verið hefur upp að síðkastið, en alls voru fluttar út vörur fyrir 43,7 mailljarða kr. í mánuðinum.

Á fimmtudag mun Seðlabankinn birta stöðu efnahagsreiknings síns fyrir októberlok og á föstudag ítarlega sundurliðun á gjaldeyrisforða. Í lok september nam gjaldeyrisforði Seðlabankans 434,7 milljarða kr. og lækkaði um tæpa 14,6 milljarða kr. frá fyrri mánuði.

Erlend verðbréf hækkuðu um 6,6 milljarða kr. í mánuðinum og seðlar og innstæður um 23 miljarða kr. Lækkun gjaldeyrisforðans stafaði einkum af greiðslu erlends láns ríkissjóðs með gjalddaga í september.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×