Viðskipti innlent

SÍSP um greiðslumiðlun við útlönd

Mynd sem sýnir viðskiptanet Sparisjóðabankans. Ekki eru þó allir bankar merktir inn á kortið því bankinn hefur viðskiptasambönd í 78 löndum.
Mynd sem sýnir viðskiptanet Sparisjóðabankans. Ekki eru þó allir bankar merktir inn á kortið því bankinn hefur viðskiptasambönd í 78 löndum.

Samband íslenskra sparisjóða og Sparisjóðabanki Íslands hf. hafa að undafnförnu haldið því fram, og gera enn, að Sparisjóðabankinn, einn íslenskra banka hafi sjálfstæða greiðslumiðlun við útlönd. Á síðustu dögum hafa bæði Nýja Kaupþing og Íslandsbanki sent frá sér tilkynningar um getu þeirra til að annast erlenda greiðslumiðlun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sambandi íslenskra sparisjóða. Þar segir að í framhaldi af ofangreindu skuli eftirfarandi áréttað:

„Sparisjóðabankinn hefur á undanförnum 20 árum áunnið sér traust erlendra banka og fjármálastofnana og byggt upp gagnkvæm sambönd (Swift-lykla) við 589 fjármálastofnanir í 78 löndum sem gera bankanum kleift að senda fyrirmæli um flutning fjármuna viðskiptavina sinna frá einum bankareikningi til annars eða einu landi til annars. Engar aðrar skuldbindingar hvíla á bankanum eða íslenska ríkinu vegna þessarar greiðslugáttar.

Hér er fullyrt að allar greiðslur sem fara í gegnum ríkisbankana séu tryggðar af íslenska ríkinu (á ábyrgð íslenskra skattborgara) og raunkostnaður íslensks samfélags við þessa tilhögun sé margfaldur sá kostnaður sem viðgengst í hefðbundum viðskiptum af þessu tagi.

Við viljum hvetja fjölmiðla til að fá ríkisbankana, Seðlabanka Íslands og Fjármálaráðuneytið til að leggja fram upplýsingar um þann raunkostnað sem til fellur vegna nauðasamninga ríkisins við bandaríska risabankann JP Morgan Chase.

Þá teljum við fróðlegt að vita hvers vegna JP Morgan banki er ekki reiðubúinn að sinna greiðslumiðlun fyrir Landsbankann og hvernig Seðlabankinn og ríkisstjórnin metur framtíðarstöðu Landsbankans í ljósi þess að enn hefur ekki tekist að fá nafn hans fjarlægt af lista Bretadrottingar um hryðjuverkaaðila.

Jafnframt teldum við fróðlegt ef fjölmiðlar óskuðu eftir upplýsingum um hver viðbrögð Seðlabanka og ríkisstjórnar verða til stuðnings sparisjóðunum, verði Sparisjóðabankinn keyrður í þrot og hvort JP Morgan sé reiðubúinn að taka við alþjóðlegri greiðslumiðlun fyrir sparisjóðina á Íslandi?

Að lokum væri áhugavert að heyra hvaða aðrir alþjóðlegir bankar hafa sýnt áhuga eða lagt fram tilboð til íslenska ríkisins um að sinna alþjóðlegri greiðslumiðlun fyrir ríkisbankana og í framhaldi þar af hvaða varúðaráætlun liggur frammi fari svo að JP Morgan Chase velji að draga sig í hlé eða ef ríkisbankarnir allir lenda á hryðjuverkalistum erlendis."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×