Viðskipti innlent

Kæra stjórnendur lífeyrissjóða vegna venslatengsla

Kaupþing.
Kaupþing.

Tveir stjórnarmenn í VR kæra á morgun stjórn og stjórnendur Lífeyrissjóðs Verslunarmanna til Fjármálaeftirlitsins vegna brota á samþykktum sjóðsins og lögum um lífeyrissjóði samkvæmt kvöldfréttum RÚV.

Samkvæmt RÚV þá eru Þeir Bjarki Steingrímsson, varaformaður VR og Ragnar Þór Ingólfsson, stjórnarmaður VR sem hyggjast leggja fram kæru til FME á morgun. Þá grunar að stjórnendur Lífeyrissjóðs Verslunarmanna hafi brotið gegn lögum og lögbundnum samþykktum sjóðsins.

Ástæðan eru vensl stjórnarmanna við starfsmenn Kaupþings og snúa kæruefnin að viðskiptum Lífeyrissjóðsins við Kaupþing og Existu, sem var aðaleigandi bankans.

Í frétt RÚV kemur fram að Gunnar Páll Pálsson, fyrrverandi formaður VR og stjórnarformaður Lífeyrissjóðsins hafi einnig verið í stjórn Kaupþings en eiginkona hans er lykilstarfsmaður Kaupþings.

Þá var Þorgeir Eyjólfsson forstjóri Lífeyrissjóðsins þangað til í vor. Eiginkona hans er starfsmaður hjá Kaupþingi, sonur þeirra er sérfræðingur á fyrirtækjasviði bankans og dóttir þeirra framkvæmdastjóri eignarstýringar Existu.

Guðmundur Ólafsson, lögmaður VR, á eiginkonu sem er forstöðumaður hjá Kaupþingi.

Kæruefnið varðar stórfelld hlutafjárkaup, lánveitingar og gjaldeyrissamninga við Existu og félög í eigu þess meðal annars Kaupþing.

Stjórnarmenn VR vilja vita hvort þessi vensl og fleiri hafi leitt til gjörninga sem hafi skaðað hagsmuni almennra sjóðsfélaga í Lífeyrissjóði Verslunarmanna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×