Innlent

Frjálslyndi flokkurinn skuldar sex milljónir

Guðjón Arnar Kristjánsson.
Guðjón Arnar Kristjánsson. Mynd/GVA
„Við erum ekkert hættir í pólitík þó við skuldum einhverjar milljónir. Það hefur oft komið fyrir áður að við skuldum peninga," segir Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins.

Flokkurinn skuldar rúmlega 6 milljónir króna og eru skuldirnar að mestu leyti tilkomnar vegna nýafstaðnar kosningabaráttu, segir Guðjón. Flokkurinn eyddi á bilinu 3 til 4 milljónum í auglýsingar.

Þá segir Guðjón að við síðustu áramót hafi flokkurinn nánast verið skuldlaus en fyrir tveimur árum námu skuldir flokksins rúmum 30 milljónum króna.

Frjálslyndi flokkurinn hlaut 2,2% atkvæða í kosningunum og náði því ekki 2,5% marki sem tryggir framboðum ríkisframlög. Magnús Reynir Guðmundsson, framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins, sagði nýverið í samtali við Fréttablaðið að þar með hafi flokkurinn orðið af 12 til 14 milljóna króna árlegum ríkisframlögum út kjörtímabilið.

Guðjón telur ólíklegt að Frjálslyndi flokkurinn fari í gjaldþrot. „Við höldum ekki að þetta sé óyfirstíganleg tala. Við ætlum okkur að vera búnir að ná þessu niður í haust."

Guðjón segir aðspurður að tapið verði meðal annars brúað með því að leitað verður til flokksfélaga. „Það eru 680 manns félagar í flokknum. Þannig að það þarf ekki stórar upphæðir frá hverjum og einum." Að auki væntir Guðjón þess að flokkurinn fá greidda styrki sem hafi ekki enn skilað sér.


Tengdar fréttir

Getur ekki greitt skuldirnar að sinni

Fjárhagsstaða Frjálslynda flokksins er slæm og þarf flokkurinn að semja við lánardrottna um greiðslufrest á skuldum. Flokkurinn náði ekki því 2,5 prósenta marki í kosningunum á laugardag sem tryggir framboðum ríkisframlög. Magnús Reynir Guðmundsson, framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins, telur að þar með hafi flokkurinn orðið af 12-14 milljóna króna árlegum ríkisframlögum út kjörtímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×