Viðskipti innlent

Einn í peningastefnunefnd vildi 2-3% stýrivaxtalækkun

Einn nefndarmaður í peningastefnunefnd taldi að rétt væri að taka heldur stærra skref við síðustu stýrivaxtalækkun og lagði til að vaxtalækkunin yrði á bilinu 2,0 til 3,0 prósentustig.

Þetta kemur fram í fundargerð nefndarinnar um síðustu stýrivaxtaákvörðun en fundargerðin hefur verið birt á vefsíðu Seðlabankans.

Þar segir að nefndarmaðurinn hélt því fram að á meðan gjaldeyrishöft væru til staðar gætu mjög háir vextir veikt gengi krónunnar til skamms tíma litið með því að auka á streymi vaxtatekna á gjaldeyrismarkaðinum og einnig á næstu misserum með því að auka smám saman eignir erlendra aðila í íslenskum krónum.

Þetta kallaði á lægra gengi í framtíðinni svo að nægilegur afgangur skapaðist á vöruskiptum til að mæta auknum erlendum skuldum. Jákvæð áhrif hárra stýrivaxta á gengi krónunnar, í gegnum minni leka í gjaldeyrishaftakerfinu, væru óviss þar sem óþolinmóðustu erlendu eigendur eigna í íslenskum krónum vildu losa sig við krónuna jafnvel með mjög háum vöxtum.

Hvað fjármálakreppuna snerti ykju háir stýrivextir á kreppuna með því að soga lausafé út úr atvinnulífinu og hraða þar með gjaldþrotum. Raunvextir miðað við suma mælikvarða á verðbólguvæntingar væru nú þegar nokkuð háir.

Vegna fjármálakreppunnar væri engin ástæða til að hafa áhyggjur af verðbólgu. Allar hækkanir á vísitölu neysluverðs endurspegluðu einfaldlega gengishreyfingar af völdum breytinga á framboði og eftirspurn eftir erlendum gjaldmiðlum. Engu að síður var þessi nefndarmaður sammála öðrum nefndarmönnum um að draga bæri varlega úr peningalegu aðhaldi og að fylgjast bæri með vaxtamun til að hvetja þolinmóðari eigendur eigna í íslenskum krónum til að halda að sér höndum.

Í ljósi umræðunnar lagði seðlabankastjóri til að stýrivextir yrðu lækkaðir um 1,5 prósentur í 15,5%. Seðlabankastjóri bauð öðrum meðlimum peningastefnunefndarinnar að greiða atkvæði um tillöguna. Fjórir nefndarmenn greiddu atkvæði með tillögu seðlabankastjórans. Fimmti nefndarmaðurinn greiddi atkvæði með 2 prósentna lækkun stýrivaxta.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×