Viðskipti innlent

Líf og fjör á skuldabréfamarkaðinum

Líflegt var á skuldabréfamarkaði í gær og sömu sögu má segja um það sem af er morgni. Alls nam veltan í ríkisbréfum og íbúðabréfum tæplega 7,1 milljarði kr. í gær og þegar þetta er ritað (kl.11:30 f.h.) er velta dagsins tæpir 3 milljarðar kr. í fyrrnefndu bréfunum en 1,5 milljarða kr. í þeim síðarnefndu.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að krafa íbúðabréfa hefur lækkað um 16 til 36 punkta frá lokun markaða á mánudag og virðist verulegur kaupáhugi á verðtryggðum bréfum vera til staðar. Heldur minni breytingar hafa orðið á kröfu ríkisbréfa en hún hefur þó einnig þokast niður.

Engin ein skýring virðist vera á þessum skyndilega fjörkipp á skuldabréfamarkaði. Þó má tína ýmislegt til. Til dæmis hafa innlánsvextir hjá helstu fjármálastofnunum lækkað nokkuð undanfarið enda virðist vera rúmt um lausafé á peningamarkaði ef marka má þróun stuttra millibankavaxta. Þá birti Íbúðalánasjóður á mánudag endurskoðaða áætlun þar sem gert er ráð fyrir minni útgáfu íbúðabréfa en áður.

Í þriðja lagi styttist nú í næstu vaxtaákvörðun Seðlabankans þann 7. maí næstkomandi og vænta margir þess að stýrivextir verði þá lækkaðir enn frekar eftir 2,5 prósentu lækkun þeirra frá miðjum mars.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×