Viðskipti innlent

Stofna eignastýringarfyrirtæki í Lúxemborg

Nokkrir af fyrrverandi starfsmönnum íslensku bankanna í Lúxemborg hafa nú stofnað nýtt eignastýringarfyrirtæki þar í landi.

Að félaginu standa nokkrir fyrrverandi starfsmenn útibúa Landsbankans og Kaupþings í Lúxemborg en fyrirtækið hefur fengið starfsleyfi frá fjármálaráðuneytinu þar í landi. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Félagið heitir Arena Wealth Management en um níu reyndir bankamenn standa að því. Framkvæmdastjórar félagsins eru Þorsteinn Ólafsson og Arnar Guðmundsson.

Þorsteinn segir í samtali við Viðskiptablaðið að með stofnun félagsins geti þeir viðhaldið þekkingunni og samböndum sem búið var að byggja upp á löngu tímabili. Fyrirtækið hefur meðal annars unnið með Deutsche Bank og hefur aðgang af sjóðum annarra fjármálastofnana og getur þannig fjárfest fyrir sína viðskiptavini í sjóðum annarra banka með einföldum hætti.

Fjölmargir Íslendingar störfuðu fyrir dótturfélög íslensku bankanna í Lúxemborg og var mikill Íslendingabragur yfir borginni. Dæmi eru um að fyrrverandi starfsmenn íslensku bankanna hafi ráðið sig í vinnu hjá öðrum fjármálafyrirtækjum þar í borg eftir bankahrunið, enda jafnvel búnir að búa lengi í Lúxemborg auk þess sem börn þeirra voru komin inn í skólakerfið þar í landi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×