Viðskipti innlent

Laun sérfræðinga hækka en laun ófaglærðra lækka

Meðallaun sérfræðinga hækkuðu um 3,4% frá september 2008 fram í febrúar 2009. Á sama tímabili lækkuðu meðallaun ófaglærðs starfsfólks um 4,7%, að því er fram kemur í Launagreiningu ParX sem er dótturfélag Nýherja.

Í frétt frá ParX um málið segir að þegar laun sérfræðinga eru skoðuð sérstaklega kemur í ljós að meðallaun lögfræðinga hafa hækkað um 7,2% á meðan laun sérfræðinga í markaðsmálum hafa lækkað um 8,1%. Þá hækkuðu meðallaun fjármálastjóra um 5,6%.

Meðal ófaglærðra hefur launaþróun orðið með eftirfarandi hætti frá september 2008 fram í febrúar 2009: Meðallaun bílstjóra hækkuðu um 3%, laun starfsfólks í ræstingum lækkuðu um 0,7%, laun starfsfólks í almennum sölu- og afgreiðslustörfum hækkuðu um 3,6% og laun starfsfólks í sérhæfðum sölu- og afgreiðslustörfum lækkuðu um 3,8%.

Í heild hækkuðu meðallaun allra starfshópa í Launagreiningu ParX um 1% frá því í september 2008 fram í febrúar 2009. Til samanburðar hækkuðu laun sömu hópa um 30% á almennum vinnumarkaði á árunum 2005-2008, samkvæmt gögnum frá ParX.

„Það má færa rök fyrir því að ný viðmið hafi skapast við launaákvarðanir á almennum vinnumarkaði miðað við niðurstöður ParX. Gögnin sýna að laun hafa staðið í stað eða lækkað hjá mörgum starfshópum," segir Brynja Bragadóttir fagstjóri rannsókna- og greiningasviðs hjá ParX viðskiptaráðgjöf.

Hún segir að þegar gera eigi breytingar á launum starfsfólks sé mikilvægt að stjórnendur hafi yfirsýn yfir laun á almennum markaði og að þeir geti borið laun einstakra starfshópa saman við laun annarra launþega í sambærilegum störfum innan sambærilegra fyrirtækja, t.d. fyrirtækja af svipaðri stærð og í sömu starfsgrein.

Launagreiningin, sem hefur verið framkvæmd árlega frá 1979, byggir á upplýsingum úr launakerfum íslenskra fyrirtækja. Könnunin er ekki viðhorfskönnun starfsmanna á almennum vinnumarkaði heldur er stuðst við gögn beint úr launakerfum og eru þau m.a. greind eftir starfsheitum, starfsgreinum og stærð fyrirtækja. Launagreining ParX gefur því raunhæfa mynd af stöðu og þróun launa á íslenskum vinnumarkaði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×