Viðskipti innlent

Gjaldeyrisforðinn minnkaði um 90 milljarða frá áramótum

Gjaldeyrisforði Seðlabankans (SÍ) hefur minnkað um tæplega 90 milljarða kr. frá áramótum. Þetta kemur fram í hagtölum bankans.

Gjaldeyrisforðinn nam rúmlega 429 milljörðum kr. í desember s.l. en í febrúar var hann tæplega 341 milljarður kr.

Erlendar eignir Seðlabankans námu 407 milljörðum kr. í lok febrúar samanborið við 435 milljarða kr. í lok janúar 2009. Í desember s.l. voru eignirnar hinsvegar 506 milljarðar kr. þannig að þær hafa minnkað um 100 milljarða á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs.

Erlendar skuldir Seðlabanka Íslands voru 215,3 milljarðar kr. í lok febrúar en voru 221,4 milljarða kr. í lok janúar. Í desember voru þær hinsvegar rúmlega 264 milljarðar kr. þannig að þær hafa minnkað um tæplega 40 milljarða kr. á fyrstu tveimur mánuðum ársins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×