Viðskipti innlent

Mun færri samningar á fasteignamarkaðinum í apríl

Samtals voru gerðir 116 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði í apríl samkvæmt upplýsingum Fasteignaskrár Íslands. Þetta eru mun færri samningar en voru gerðir í mars en þá voru gerðir 164 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði og 175 samningar í febrúar.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að þessi fækkun kaupsamninga í apríl sé rekjanleg til þess að páskarnir voru í mánuðinum. Þetta er engu að síður mikil fækkun samninga frá því sem áður var.

Samtals voru gerðir 280 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði í mars og apríl mánuðum á þessu ári en á sama tímabili fyrir ári síðan voru gerðir 662 kaupsamningar. Þetta er því fækkun um 58% á milli ára.

Veltan á íbúðamarkaði í apríl síðastliðnum nam samtals 4.9 milljörðum króna en samanlögð velta fyrstu 4 mánaða ársins er 18.3 milljarðar króna og hefur dregist saman um 60% frá sama tímabili fyrra árs.

Umsvif og velta hafa nú dregist mikið saman frá því sem áður var, en íbúðamarkaðurinn er sá markaður sem finnur hvað mest fyrir áhrifum gjörbreytts efnahagsumhverfis ef frá er talinn hlutabréfamarkaður. Þá hefur íbúðaverð tekið að lækka og hefur það sem af er ári lækkað um 6%.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×