Viðskipti innlent

Stjórn Stoða riftir fjórum viðskiptasamningum

Stjórn Stoða hafa í kjölfar úttektar á starfsemi fyrirtækisins á árunum 2006 til 2008 gert ráðstafanir til riftunar fjögurra viðskiptagjörninga. Um er að ræða riftun greiðslu lífeyrissjóðsiðgjalda í janúar 2009 sem félagið er ekki talið hafa verið skyldugt að greiða, að fram kemur í tilkynningu. Annað riftunarmál snýr að sölu Stoða á hlutabréfum í Alfesca til Teymis í júlí 2008 þar sem endurgjald er ekki talið viðunandi.

Hin tvö tilfellin lúta að veðsetningu og sölu eigna Stoða til Glitnis. Í tilkynningunni segir að eignarhlutir Stoða í Eikarhaldi og Fasteignafélagi Íslands hafi verið veðsettir Glitni samhliða lántöku í apríl 2008, og síðan seldir Glitni í júní 2008. Eignarhlutur Stoða í House of Fraser var veðsettur Glitni samhliða lántöku í mars 2008, og síðar seldur Glitni, í ágúst 2008. Veðsetning eignanna og ráðstöfun söluandvirðisins, að mestu til niðurgreiðslu skulda Stoða hjá Glitni, er talin hafa haft í för með sér mismunun gagnvart öðrum lánardrottnum Stoða.

Stoðir hafa þegar sent umræddum mótaðilum kröfur um riftun og endurgreiðslu. Stjórn Stoða vill taka fram að ekki er unnt að slá því föstu að riftanir umræddra ráðstafana gangi eftir og ennfremur þykir ljóst að töluverðan tíma mun taka að leiða þessi mál til lykta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×