Viðskipti innlent

Kauphöllin áminnir Atorku og sektar um 1,5 milljón

Kauphöllin hefur ákveðið að áminna Atorku opinberlega og sekta félagið um 1,5 milljón kr. Telur kauphöllin að Atorka hafi brotið gegn ákvæðum reglna fyrir útgefendur fjármálagerninga í kauphöllinni.

Forsaga málsins er að Atorka birti þann 10. febrúar s.l. tilkynningu um að samið hefði verið um kyrrstöðu til 20. mars við eigendur tveggja skuldabréfaflokka. Af tilkynningunni er ljóst að kyrrstaðan tæki til lokagjalddaga annars flokksins sem var þann 16. janúar s.l. og vaxtagreiðslu á hinum sem var 26. janúar.

Kauphöllin setti alla skuldabréfaflokka Atorku á athugunarlista við tilkynninguna og óskaði eftir skýringum frá Atorku á því afhverju ekki hefði verið tilkynnt um leið um drátt á greiðslum höfuðstóls/vaxta af þessum skuldabréfum um leið og það lá ljóst fyrir.

Í svari Atorku segir m.a. að í janúar hefðu hafist viðræður við eigendur í skuldabréfaflokkum sem voru með loka- og vaxtagjalddaga í janúar og febrúar með það fyrir augum að gefa þeim kost á aðkomu að endurskipulagningu félagsins.

Í úrskurði kauphallarinnar segir m.a. að upplýsingar um fjárhagsstöðu félagsins og greiðsluörðugleika eru upplýsingar sem félagið mátti vita að væru til þess fallnar að hafa áhrif á markaðsverð verðbréfa þess. Brýnt sé að fjárfestar séu upplýstir um slíkt samkvæmt reglum kauphallarinnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×