Viðskipti innlent

Íslenskir lífeyrissjóðir með næstbestu afkomu í Evrópu

Samkvæmt úttekt í Wall Street Journal (WSJ) skiluðu íslensku lífeyrissjóðirnir næstbestu afkomu meðal 10 Evrópuþjóða. Aðeins lífeyrissjóðir í Sviss töpuðu minna á síðasta ári en þeir íslensku.

Blaðið vitnar í Robin Creswell forstjóra fjárfestingarfélagsins Payden & Rygel sem annast erlendar fjárfestingar fyrir þrjá af íslensku sjóðunum. Hann segir að tap nokkurra þeirra hafi aðeins numið 4% á síðasta ári af fjárfestingum þeirra en samkvæmt tölum frá Landssamtökum lífeyrissjóða var meðaltap þeirra 9,2% í fyrra.

Þetta er talið mjög gott í ljósi þess að hlutabréfamarkaðurinn hrundi saman um 95% með bankahruninu í haust.

Til samanburðar nefnir WSJ að tap sænsku lífeyrissjóðanna hafi numið rúmum 20% en þar féll hlutabréfamarkaðurinn um 40% á síðasta ári. Tekið er fram að sænskir lífeyrissjóðir eru þekktir fyrir að vera varfærnir í fjárfestingum sínum.

Og tap bresku lífeyrissjóðanna var að meðaltali um 13% á síðasta ári.

Það sem einkum hjálpar til við að gera stöðu íslensku lífeyrissjóðanna svona góða m.v. aðrar Evrópuþjóðir er tvennt að mati WSJ. Annarsvegar er það ónýt krónan sem hefur fallið um 45% en um 30% af fjárfestingum lífeyrissjóðanna voru í erlendum eignum. Og hinsvegar eru það mjög háir vextir hérlendis.

Rætt er við Hrafn Magnússon framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða sem segir að þrátt fyrir gífurlega efnahagslega erfiðleika sé íslenska lífeyrissjóðakerfið enn sterkt.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×