Skoðun

Nokkur orð um döffleikhús

Margrét Pétursdóttir skrifar

Í Fréttablaðinu laugardaginn 3. október skrifaði Páll Baldvin áhugaverða grein um þann niðurskurð sem fyrirsjáanlegur er í menningarlífi okkar Íslendinga á komandi fjárlögum. Það sem vakti hins vegar athygli mína var umræða hans um fjárveitingu af fjárlögum 2009 til Draumasmiðjunnar vegna leiklistarhátíðarinnar DRAUMAR 2009.

Mér fannst umræða hans einkennileg og gera lítið úr því starfi sem Draumasmiðjan er að vinna.

Í fyrsta lagi langar mig að benda á ranga orðanotkun Páls Baldvins, en í greininni kallar hann hátíðina „leiklisthátíð daufdumbra“ þegar hið rétta er „döff leiklistarhátíð“. Döff er tökuorð úr táknmálinu og stendur fyrir að vera heyrnarlaus, tala táknmál og að tilheyra döff menningarsamfélagi. Orðið heyrnarlaus nægir ekki, því það þýðir einungis að heyra ekki. Því hefur skapast sú venja að nota orðið döff fyrir þennan þjóðfélagshóp.

Daufdumbur þýðir hins vegar samkvæmt orðabókum að vera bæði heyrnarlaus og mállaus og það eru döff ekki. Þeir eru ekki mállausir. Döff eiga sér mál sem er byggt á hinu sjónræna en ekki á hljóði. Þeir tala táknmál og hér á Íslandi tala þeir íslenskt táknmál (ÍTM). Íslenska táknmálið er mál, með málfræði, orðasamböndum og öllu því sem máli fylgir.

Kannski mætti segja að þörfin fyrir þessa leiklistarhátíð sé til komin einmitt vegna fyrrgreinds viðhorfs til döff og táknmálsins.

En því ætti að styrkja hátíð sem þessa? Þann sama laugardag sem Páll Baldvin skrifaði þessa grein voru á leikhússíðum Morgunblaðsins auglýstar 20 leiksýningar (þ.e. atvinnuleiksýningar). Ekki voru leitaðar uppi áhugaleiksýningar og sýningar Sjálfstæðu leikhúsanna sem margar hverjar eru ekki auglýstar, en greinarhöfundur er þess fullviss að þær hafi verið nokkrar. Engin ofangreindra sýninga var döff leiksýning, engin þeirra var túlkuð og engin þeirra hentaði döff neitt sérstaklega. Það voru nákvæmlega engar leiksýningar fyrir döff þennan ákveðna laugardag, á meðan heyrandi gátu valið úr 20 leiksýningum. Þetta er ekki undantekningin, þetta er venjan.

Draumasmiðjan hefur reynt að setja upp a.m.k. eina döff leiksýningu á ári en ein sýning á ári er ekki sambærilegt við það úrval sem við heyrandi þekkjum. Það er dýrt að búa til leiksýningar. Á leiklistarhátíðina komu þrjár erlendar sýningar til viðbótar við íslensku sýninguna og slíkan fjölda sýninga hefði Draumasmiðjan ekki ráðið við að setja upp á einu ári. Þó að sýningarnar hafi verið á erlendum táknmálum eiga þær meiri samleið með döff heldur en íslenskt leikhús á íslensku raddmáli og jafnvel meiri samleið en túlkuð íslensk leiksýning. Það er því vel skiljanlegt að fjárlaganefnd hafi ákveðið að styrkja DRAUMA 2009, döff áttu það einfaldlega skilið að fá loksins úrval leiksýninga að velja úr.

Páll Baldvin talaði einnig um að styrkveitingin hafi komið „í bakið“ á áhugaleikfélögunum, en hún hefði ekki átt að gera það. Styrkveitingin til Draumasmiðjunnar var hrein viðbót við þá upphæð sem rennur til áhugaleikfélaganna en ekki tekin af þeirra föstu upphæð. Draumasmiðjan er hins vegar sammála áhugaleikfélögunum að best hefði verið að styrkurinn hefði verið undir liðnum atvinnuleikhús þar sem Draumasmiðjan er atvinnuleikhús. Best teldi Draumasmiðjan hins vegar að döff leikhúsið hefði sinn eigin lið á fjárlögum, fasta upphæð frá ári til árs, með nægilegt fjármagn til að geta boðið döff upp á framsæknar og metnaðarfullar sýningar.

Draumasmiðjan hefur unnið að döff leikhúsi í næstum 10 ár, eða frá árinu 2000. Á þessu tímabili hefur hún þrisvar fengið styrk frá leiklistarráði, einn þeirra var opinn og ákvað hún sjálf að setja þann styrk í döff leiksýningu, en tvisvar fékk hún styrk til sýninga fyrir heyrandi áhorfendur. Það ætti frekar að vera tilefni til greinaskrifa, en að Draumasmiðjan fái styrk af fjárlögum fyrir leiklistarhátíð sem að auki kom með gjaldeyristekjur inn í landið á erfiðum tímum þar sem hátíðin var vel styrkt af Norræna menningarsjóðnum.

Höfundur er leikhússtjóri Draumasmiðjunnar.




Skoðun

Sjá meira


×