Viðskipti innlent

Fréttaskýring: Stýrivaxtalækkun og afnám gjaldeyrishafta

Friðrik Indriðason skrifar: skrifar
Mark Flanagan, formaður sendinefndar AGS á Íslandi.
Mark Flanagan, formaður sendinefndar AGS á Íslandi.

Tveir mjög jákvæðir punktar komu fram í máli fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) nú fyrir hádegið á blaðamannafundi í Seðlabankanum. Annarsvegar var um að ræða að svigrúm hefur myndast fyrir stýrivaxtalækkun og hinsvegar að fyrstu skrefin í afnámi gjaldeyrishaftanna eru í sjónmáli.

Eins og Mark Flanagan benti á í máli sínu hefur verðbólgan á Íslandi minnkað nokkuð meir en menn gerðu ráð fyrir þegar fyrstu áætlanir AGS og stjórnvalda voru settar saman. Hagfræðideild Landsbankans gerir ráð fyrir að verðbólgan í mælist rétt rúmlega 16% í mars og sagði Ingvi Örn Kristinsson forstöðumaður deildarinnar í samtali við Fréttastofu í vikunni að stýrivaxtalækkun upp á 2 til 3 prósentustig væri ekki fjarri lagi.

Það þykir ekki góð hagfræði að lækka stýrivexti niður fyrir verðbólgustigið, þegar verðbólgan er mikil. Því má fastlega gera ráð fyrir að stýrivaxtalækkun Seðlabankans í næstu viku verði 2 prósentustig. Hið jákvæða er að hagfræðideildin gerir ráð fyrir að verðbólgan í apríl muni mælast í kringum 12%, þegar aprílmælingin frá í fyrra dettur út, og því má gera ráð fyrir að þá verði stýrivextir lækkaðir um 3 til 4 prósentustig í viðbót.

Miðað við þau orð Flanagan á fyrrgreindum fundi að viðsnúningur í íslensku efnahagslífi hefjist ekki fyrr en undir lok árs má gera ráð fyrir áframhaldandi samdrætti í þjóðfélaginu með tilheyrandi minnkun verðbólgunnar. Því er ekki fjarri að áætla að stýrivextirnir nái eins stafs tölu strax í sumar, eða í síðasta lagi í haust.

Hvað varðar afnám gjaldeyrishaftanna í áföngum sem eiga að hefjast á næstunni væri bjartsýni að telja að slíkt afnám verði á næstu þremur mánuðum eða jafnvel lengur. Enda er ekkert að finna, hvorki í máli Flanagan eða fréttatilkynningu frá AGS í morgun um það mál. Það er annað en almennt orðalag um að það standi fyrir dyrum að hefja afnámið í áföngum. Og raunar sagði Flanagan á fyrrgreindum fundi að mikil áhætta væri samfara því að afnema höftin strax.

Stöðugleiki í gengi krónunnar er önnur höfuðforsenda þess að hægt sé að hefja afnám gjaldeyrishaftanna. Hin höfuðforsendan er að samningar náist við þá erlenda fjárfesta sem brunnið hafa inni með fé sitt á Íslandi. Er þá einkum átt við eigendur krónubréfa og þá sem eiga mikið fé bundið í ríkisbréfum.

Gengi krónunnar tók nokkra dýfu í gærdag þegar það féll um 2,4% og hefur sú veiking haldið að hluta til áfram í dag. Sérfræðingar telja að skýringuna sé m.a. að finna í að fimm milljarða kr. vaxtagreiðslur af stórum flokki ríkisbréfa eru framundan í næstu viku. Greiðslurnar þarf Seðlabankann að gera upp í gjaldeyri til erlendra fjárfesta sem eiga nær allan flokkinn

Fimm milljarðar eru hreinir smáaurar í sögulegu ljósi gjaldeyrismarkaðarins hér á síðustu árum. Að krónan geti sveiflast svona mikið af svona litlu tilefni bendir ekki til mikils stöðugleika á henni. Hið jákvæða er að samningar eru hafnir við hina erlendu fjárfesta og hefur viðskiptaráðherra sagt að stefnt sé að því að þeim ljúki í apríl.

Það er vitað að gjaldeyrishöft eru eitur í beinum AGS enda er frjálst flæði fjármagns milli landa einn af hornsteinunum í stefnu sjóðsins. Því má gera ráð fyrir að sjóðurinn muni þrýsta mjög á við næstu endurskoðun á samstarfi hans og íslenskra stjórnvalda eftir þrjá mánuði að ítarleg áætlun liggi fyrir um afnám gjaldeyrishaftanna.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×