Innlent

Katrín opnar Drekann á ný

Kristján Már Unnarsson skrifar
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra kynnti iðnaðarnefnd Alþingis í morgun þá ákvörðun að opna á ný fyrir umsóknir um olíuleit á Drekasvæðinu eftir áramót. Umdeildum skattareglum verður ekki breytt.

Eftir að bæði félögin, sem sóttu um Drekasvæðið, drógu umsókn sína til baka, óskaði Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, eftir því að iðnaðarnefnd Alþingis kæmi saman til að fjalla um stöðu málsins og framhaldið.

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra færði þingnefndinni þau tíðindi að eftir áramót yrði farið af stað með svokallaða "open door policy", þar sem opnað yrði fyrir umsóknir í sjö mánuði um þau fimm sérleyfi sem í boði voru í Drekaútboðinu; reglan yrði fyrstur kemur fyrstur fær. Þessi tími yrði notaður mjög vandlega til að undirbúa nýtt útboð, sem fram gæti farið árið 2011.

Katrín leggur áherslu á að að Íslendingar fari ekki af taugum og telur að efnahagslægðin í heiminum og lágt olíuverð skýri það að ekki tókst betur til í fyrstu tilraun en raun varð á. Hún viðurkennir ekki að íslenskar skattareglur hafi ráðið úrslitum. Nú væri efnahagslægð og við slíkar aðstæður teldi hún ekki rétt að stökkva til og fara í róttækar breytingar á skattaumhverfinu.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×