Viðskipti innlent

Norskir bílasalar ánægðir með íslensku kreppuna

Norskir bílasalar eru himinlifandi með fall íslenska fjármálakerfisins þar sem það gefur þeim möguleika á að gera kostakaup í notuðum bílum. Í norska blaðinu Finansavisen í dag er viðtal við norska bílasalan Trond Sandven sem sérhæfir sig í innflutningi á notuðum lúxusbílum. Áður en allt fór til fjandans á Íslandi flutti hann flesta bíla sína inn frá Þýskalandi, um 50 til 60 stykki í hverjum mánuði.

Sá innflutningur hefur því sem næst lognast út af en í staðinn hefur hann beint sjónum sínum að Íslandi. „Við höfum flutt inn 143 bíla frá Íslandi og 52 eru á leiðinni," segir bílasalinn, en Fréttablaðið greindi frá fyrirætlunum hans fyrir jól. „Notaður Range Rover Sport TDV8 kostar 60 þúsund evrur í Þýskalandi en á Íslandi fæ ég hann á 32 þúsund evrur," segir hann í Finansavisen.

Eina vandamálið fyrir bílasalann er að markaðurinn fyrir lúxusbíla hefur dregist saman Í Noregi eins og annars staðar. „Þó ég geti keypt Porsche Cayenne á Íslandi á ótrúlegu verði stoðar það lítið því ég á erfitt með að selja hann í Noregi," segir bílasalinn og því verður hann að einbeita sér að innflutningi á ódýrari bílum frá Íslandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×