Innlent

Markmiðið ekki að fella ríkisstjórnina

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Höskuldur Þórhallsson segir markmiðið ekki að fella ríkisstjórnina.
Höskuldur Þórhallsson segir markmiðið ekki að fella ríkisstjórnina.
„Ég er ekki í þessari vegferð til þess að fella ríkisstjórnina," segir Höskuldur Þórhallsson. Hann segir að ríkisstjórnin stjórni því sjálf hvort hún haldi áfram eða hætti. Vantrausttillaga á ríkisstjórnina hafi því ekki verið rædd á meðal framsóknarmanna.

Höskuldur segist hins vegar vera ósammála þeirri leið sem ríkisstjórnin er á. „Og ég tel að sú leið sem við erum að fara dæmi Ísland til fátæktar um einhverja tugi ára," segir Höskuldur. Hann nefnir fjórar ástæður fyrir óánægju sinni.

„Það er í fyrsta lagi Icesave, að við þurfum að taka á okkur gríðarlegar skuldbindingar frá 2014 sem mun gera kreppuna miklu lengri heldur en menn órar fyrir. Í annan stað að það þurfi að fara í þennan blóðuga niðurskurð núna. Samkvæmt þessari aðgerðaráætlun frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem ég tel að skaði okkar velferða- og menntakerfi og ég tel að sé allt of bratt af stað farið. Í þriðja lagi verðum vð að losna hér við gjaldeyrishöftin og lækka vexti á almenning," segir Höskuldur jafnframt. Hann bætir við að betur þurfi að standa að aðgerðum handa heimilunum.

„Þetta eru bara þessir fjórir meginpunktar þar sem stjórnvöld eru að fara í öfuga átt við það sem ég tel vera skynsamlegt," segir Höskuldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×