Innlent

Nýtt skattkerfi jafnar byrðum

Heimir Már Pétursson skrifar
Einstaklingar með tekjur undir 270 þúsund á mánuði og hjón undir 540 þúsundum munu greiða lægri tekjuskatt á næsta ári samkvæmt þriggja þrepa skattkerfi sem tekið verður upp á næsta ári. Hámarks heildarskattheimta verður 40 prósent.

Tillögur ríkisstjórnarinnar í skattamálum voru samþykktar á aukafundum þingflokka stjórnarflokkanna í morgun. Helsta breytingin er að tekið verður upp þriggja þrepa skattkerfi þar sem einstaklingar með unir 200 þúsundum í mánaðarlaun greiða 24,1 prósent í tekjuskatt, þeir sem eru með tekjur á bilinu 200 til 650 þúsund á mánuði greiða 27 prósent á tekjur umfram 200 þúsund og þeir sem eru með 650 þúsund eða meira í mánaðarlaun greiða 33 prósent á það sem er umfram 650 þúsundin.

Þá hækka skattleysismörk úr 113 þúsund krónum í 119 þúsund. Að samanlögðu segja formenn stjórnarflokkanna að þetta þýði að einstaklingur með undir 270 þúsundum og hjón með mánaðarlaun undir 540 þúsundum muni greiða minna í tekjuskatt á næsta ári en þau gera nú. Aukin skattbyrði færist því á þá hópa sem eru með hærri laun en þetta og þá mest á þá sem eru með laun yfir 650 þúsund krónur. Hámarks heildarskattheimta verður 40 prósent.

Samkvæmt tölum frá Fjármálaráðuneytinu hafa breytingarnar þau áhrif að einstaklingur með 180 þúsund krónur í laun greiðir tvö þúsund krónum minna í skatt af launum sínum. Hjón með 350 þúsund krónur í laun greiða 4.700 krónur meira í skatt og hjón með 700 þúsund krónur í laun greiðir 31.000 krónum meira í skatt af launum en áður.

Þá verður fjármagnstekjuskattur hækkaður úr 15 prósentum í 18 prósent, en fyrstu 100 þúsund krónurnar í vaxtatekjum verða þó skattfrjáls.

Nýtt 14 prósenta skattþrep verður sett á í virðisaukaskatti og sumt sem nú ber 7% virðisauka hækkað í 14 prósent, aðallega sykurvörur ýmis konar. Nýja þrepið tekur gildi í mars á næsta ári en um áramót hækkar efsta þrep virðisaukaskattsins úr 24,5 prósentum í 25 prósent. Samanlagt eiga breytingar á virðisaukaskattskerfinu að skila um 8 milljörðum í ríkissjóð.

Orku- , umhverfis og auðlindaskattar eiga að skila 5,6 milljörðum. Þar munar mest um 12 aura gjald sem lagt verður á hverja selda kílóvattsstund af rafmagni sem skili 1,8 milljörðum, þar af 1,6 milljörðum frá stóriðjunni.

Aðrir tekjustofnar eru all nokkrir, þannig á 1,6 prósentustiga hækkun tryggingagjalds að skila 12 milljörðum í auknar tekjur sem duga á til að standa undir auknum kostnaði af atvinnuleysisbótum. Þá á kolefnisgjald að skila 2,5 milljörðum en það leggst á allt eldsneyti. Samanlagt eiga nýir skattar og gjöld að skila um 50 miljörðum á næsta ári.




Tengdar fréttir

Segir mikilvægara að auka tekjur en að skera niður

Innan BSRB og Starfsmannafélags ríkisins hafa menn verið tiltölulega jákvæðir út í þá hugmyndafræði unnið er eftir í tillögum um skattabreytingarnar sem ríkisstjórnin kynnti í dag, að sögn Árna Stefáns Jónssonar, formanns SFR.

Vilhjálmur: Í takt við það sem búist var við

„Þetta er svona í takt við það sem maður hafði búist við en ekki allt sem maður hefði skrifað upp á," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um skattatillögur ríkisstjórnarinnar. Hann segist hafa heyrt af tillögunum í fréttum en ekki kynnt sér þær umfram það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×