Viðskipti innlent

Hækkanir opinberra gjalda vofa yfir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gjaldskrárhækkanir eru framundan hjá bæði ríki, sveitarfélögum og orkufyrirtækjum. Að einhverju leyti skýrast þessi atriði nánar í næsta mánuði þegar ríkisstjórnin kynnir fjárlög fyrir árið 2010. Greiningadeild Kaupþings telur að þessi atriði gætu hækkað vísitölu neysluverðs um 3,1%, en áhrifin dreifist yfir árin 2009-2011.

Greiningadeildin bendir á að þegar hafi verið tilkynnt um hækkanir á gjöldum á áfengi og tóbak. Ætla megi að áhrifin verði um 0,6% til hækkunar neysluverðsvísitölu í heild, þar af komi til áhrifa 0,3% í janúar 2010. Þá hafi fjármálaráðherra ekki útilokað aðrar skattahækkanir eins og frekari hækkun á bensín- og olíugjaldi. Greiningardeild Kaupþings gerir ráð fyrir um 10% hækkun á bensín- og olíugjaldi sem komi fram á fyrsta fjórðungi á næsta ári og fyrsta fjórðungi 2011. Gerir Greiningadeildin ráð fyrir 0,2% áhrifum til hækkunar neysluverðsvísitölu vegna þessa.

Þá segir Greiningadeildin afar líklegt að sveitarfélög og orkufyrirtæki tilkynni gjaldskrárhækkanir á næstu misserum. Ætla megi að vísitöluáhrifin verði um 0,7% í heild eða um 0,35% á ári.

Þá telur Greiningadeild Kaupþings líklegt að virðisaukaskattur verði hækkaður á ný, þannig að lækkunin í mars 2007 gangi til baka. Samanlögð áhrif þessarar aðgerðar verði um 1,64% til hækkunar á neysluverðsvísitölu. Þar af komi áhrif vegna hækkunar sykurskatts fram núna í september og muni hækka neysluverðsvísitöluna um 0,25%.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×