Viðskipti innlent

Hugmyndir verða að tækifærum í Iðnó - verðlaun fyrir þær bestu

Jeff Taylor á ráðstefnu í Borgarleikhúsinu í júní.
Jeff Taylor á ráðstefnu í Borgarleikhúsinu í júní.

Jeff Taylor, stofnandi Monster.com, kemur í annað sinn til Íslands á nokkrum mánuðum 5. okt næstkomandi. Hann hyggst hjálpa íslenskum frumkvöðlum að breyta hugmyndum í tækifæri, fyrirtæki og blómleg viðskipti. Fólk er hvatt til að skila inn hugmyndum fyrir miðnætti á morgun.

Jeff Taylor mun stýra 2 klst löngum hugarflugsfundi í Iðnó með íslenskum frumkvöðlum mánudaginn 5. október frá kl.16-18. Jeff stýrði sams konar fundi í Harvard Business School nú í september þar sem hann, ásamt Chris Hughes, eins stofnanda Facebook, og Paul English stofnanda kayak.com ferðavefsíðunnar, leiðbeindi frumkvöðlum um hvernig eigi að breyta hugmyndum í tækifæri, fyrirtæki og blómleg viðskipti.

Fundurinn fer þannig fram að valdir íslenskir hugmyndasmiðir sem tóku þátt í Start09 hugmyndasamkeppni munu fá nokkrar mínútur hver til að kynna sína hugmynd. Jeff Taylor, Guðmundur Oddur Magnússon og Guðjón Már Guðjónsson munu svo þróa hugmyndirnar áfram á staðnum með þátttöku fundargesta. Að því loknu verða umræður um hugmyndirnar, framkvæmd viðskiptahugmynda almennt og skipst á þekkingu um þetta spennandi viðfangsefni. Jeff og félagar gefa allir vinnu sína.

Allir geta verið með - vegleg verðlaun

Fólk á öllum aldri er hvatt til þess að leggja fram hugmyndir og er vakin athygli á því að enga sérstaka viðskiptaáætlun þarf að leggja fram. Menn þurfa því aðeins að lúra á góðri hugmynd og skiptir ekki máli hve langt á þróunarbrautinni hún er komin. Verðlaun verða veitt fyrir þrjú efstu sætin. Ein milljón króna fyrir fyrsta sætið, hálf milljón fyrir annað sætið og 250 þúsund krónur fyrir þriðja sætið.

Frestur til að skrá hugmynd í hugmyndasamkeppnina rennur út á miðnætti á morgun miðvikudaginn 30. september. Hægt er að senda inn hugmynd á www.n1.is/start, en þar er einnig tekið á móti skráningum á fundinn í Iðnó á meðan húsrúm leyfir.

Þetta er gott tækifæri fyrir hugmyndaríka Íslendinga til að koma hugmyndum sínum í farveg. Fjölmargar góðar hugmyndir hafa borist í keppnina en aðstandendur samkeppninnar telja að góðar hugmyndir geti komið íslensku atvinnulífi á lappirnar á ný.

Ráðstefnan sem haldin var í Borgarleikhúsinu í júní er á Youtube.com/n1start.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×