Viðskipti innlent

Íslenskar vísitölur horfnar af heimskortinu

FTSE, sem heldur utan um hlutabréfavísitölur heimsins, hefur ákveðið að hætta að birta þær íslensku í daglegum gögnum sínum. Þetta er enn eitt áfallið fyrir Ísland segir í frétt um málið í viðskiptablaðinu Financial Times.

Þetta er í fyrsta sinn síðan að FTSE kom á fót heimsvísitölulista sínum árið 2003 að þjóð er tekin af listanum. FTSE er í sameiginlegri eigu Financial Times og London Stock Exhange það er kauphallarinnar í London.

Ástæðan sem gefin er fyrir þessari ákvörðun er hrun íslenska efnahagskerfisins og bankanna þriggja s.l. haust. Með því hefði hlutabréfamarkaðurinn hrunið það mikið að hann væri ekki lengur tækur hjá FTSE að því er segir í Financial Times.

Nigel Rendell markaðssérfræðingur hjá RBC Capital Markets segir að þetta séu slæmar fréttir fyrir Ísland. „Þó að flestir fjárfestar hafi komið sér út úr Íslandi mun þetta ekki hjálpa efnahag landsins," segir Rendell.

Talsmaður fjármálaráðuneytisins vildi ekki tjá sig um málið við Financial Times en sagði að landið væri staðráðið í að endurskipuleggja bankakerfið og bæta samböndin við alþjóðlega fjárfesta.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×