Viðskipti innlent

Askar fær frest frá FME til að lagfæra eiginfjárhlutfall sitt

Eiginfjárhlutfall Askar Capital er nú undir lögbundnu 8% lágmarki og hefur félagið frest frá Fjármálaeftirlitinu (FME) til að koma eiginfjárhlutfallinu í lögbundið horf.

Unnið er að lausn málsins með nýjum eiganda bankans, skilanefnd Glitnis, og öðrum kröfuhöfum.

Benedikt Árnason forstjóri Askar segir að hann sé tiltölulega bjartsýnn á að það takist að finna farsæla lausn á þessu máli.

"Við höfum átt náið samstarf við Fjármálaeftirlitið undanfarnar vikur og það kemur í ljós á allra næstu vikum hvernig málið þróast," segir Benedikt.

Aðspurður segir Benedikt að hann hafi ekki nákvæmar tölur um hve langt Askar sé nú undir lögbundnu eiginfjárhlutfalli. Hvað varðar lengdina á frest Fjármálaeftirlitsins segir Benedikt að Askar muni birta ársreikning sinn undir lok mánaðarins og þá eigi þetta að liggja fyrir.

Þann 17. mars gekk skilanefnd Glitnis að veðum í öllu hlutafé í Moderna Finance AB, móðurfélagi Askar Capital. Með þessu færðust yfirráð yfir Askar Capital til skilanefndar Glitnis.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×