Viðskipti innlent

Marel vill skoða krónubréfaleið Seðlabankans

Marel er eitt þeirra fyrirtækja á Íslandi sem hafa áhuga á að skoða krónu/ríkisbréfaleið Seðlabankans Íslands. Hefur Marel sent Seðlabankanum erindi þess efnis.

Sigsteinn Grétarsson framkvæmdastjóri Marel staðfestir þetta í samtali við Fréttastofu. „Við höfum áhuga á að skoða þetta enda teljum við málið áhugavert," segir Sigsteinn. „Við uppfyllum skilyrðin sem sett eru enda eru um 99% af tekjum okkar í erlendri mynt."

Eins og fram hefur komið í fréttum vinnur Seðlabankinn nú að lausn á vanda þeirra erlendu fjárfesta sem frosið hafa inni á Íslandi með krónueignir sínar í krónu-eða ríkisbréfum.

Ætlunin er að þeir íslensku aðilar sem hafa tekjur í erlendri mynt geti gefið út skuldabréf til langs tíma, eða 7 ára, á móti krónu/ríkisbréfunum og losað þá erlendu þannig úr stöðu sinni. Er talið að þetta kunni að létta mjög á þrýstingi á gengi krónunnar.

Sigsteinn segir að ekki sé farið að huga að neinum upphæðum eða smáatriðum. „Þetta er langhlaup frekar en stuttur sprettur," segir Sigsteinn. „Það mun örugglega taka sinn tíma að semja um málin en okkur finnst þetta gott framtak af hálfu Seðlabankans."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×