Viðskipti innlent

Vill þrjátíu þúsund af fimm hundruð milljónum

Vilhjálmur Bjarnason hefur verið ötull við að reyna á lagaumhverfi viðskiptalífsins.
Vilhjálmur Bjarnason hefur verið ötull við að reyna á lagaumhverfi viðskiptalífsins.

„Það verður spurt hverjum þeir seldu," segir Vilhjálmur Bjarnason sem er bjartsýnn á gott brautargengi í dómsmáli sem hann og dætur hans tvær höfða á hendur Straum-Burðarás og forsvarsmanna bankans en aðalmeðferð þess fer fram í dag.

Vilhjálmur krefst alls þrjátíu þúsund króna vegna málsins en hann sakar bankann um að hafa selt bréfin á undirverði. Salan átti sér stað í ágúst 2007 en þá seldi Straumur fimm prósentu hlut til huldumanns, sem ekki hefur gefið sig fram enn þá. Viðskiptin námu 10,2 milljörðum króna, en Vilhjálmur vill meina að það hefði verið hægt að fá tæpa ellefu milljarða fyrir bréfin.

„Þarna eru hagsmunir upp á minnsta kosti fimm hundruð milljónir," segir Vilhjálmur sem stendur fast á sinni kröfu. Hann segir fulla alvöru þarna á ferð, það þurfi að komast til botns í því hver keypti í bankanum. Áður hafa forsvarsmenn Straums-Burðarás hafnað því að félag í eigu eða tengslum við eiganda bankans hafi keypt í félaginu. Þeir hafa neitað að upplýsa um eignarhaldið sjálfir.

„Þetta er bara spurning um grundvallaratriði í félagarétti," segir Vilhjálmur sem lítur ekki til eigin ávinnings því málið er fordæmisgefandi vinnist sigur í því.

Aðalmeðferð fer fram í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur eftir hádegi.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×