Viðskipti innlent

Envent undirritar 6 milljarða orkusamning á Filippseyjum

Íslenska jarðhitafélagið Envent sem starfar í Filippseyjum undirritaði á dögunum fyrsta orkusölusamning félagsins við þarlenda orkuveitu. Samningurinn hljóðar uppá 6 milljarða króna.

Guðmundur F. Sigurjónsson, framkvæmdarstjóri Envent, segir samninginn þann fyrsta af fimm orkusölusamningum á starfssvæði félagsins sem til standi að undirrita á næstu mánuðum. Heildarverðmæti þeirra er áætlað 515 milljónir Bandaríkjadala eða 66 milljarðar króna.

Í tilkynningu segir að orkusölusamningurinn sé til 10 ára og er á milli Envent og Biliran Electric Cooperative (BILECO). Skv. samningnum verða seldar á 8.600 MWh (megavattsstundir) frá orkuveri Envent á Biliran eyju á Filippseyjum.

Fyrsti áfangi virkjunarinnar sem mun hefja rekstur 2012 er áætlaður 50 MW. Áform eru uppi um að bæta síðar við tveimur 50 MW áföngum þannig að heildarafl virkjunarinnar verði 150 MW. Meðalverð samningsins á hverja kílóvattsstund er 12 krónur. Orkusölusamningurinn tekur til 10% af framleiðslugetu fyrsta áfanga virkjunarinnar

Envent er íslenskt jarðhitafélag með starfssemi á Filippseyjum. Félagið er í 80% eigu Geysis Green Energy og í 20% eigu REI. Í júlí 2008 var dótturfélagi Envent úthlutað rannsóknar- og nytjaleyfi fyrir jarðhitasvæði á Filippseyjum. Jarðhitasvæðið er á Biliran eyju og tengist Visayas raforkukerfinu sem flytur u.þ.b. 1600 MW af raforku

"Það er afskaplega jákvætt fyrir verkefnið að þessi fyrsti orkusölusamningur sé í höfn. Í nágrenni virkjunarsvæðisins eru starfandi margar sjálfstæðar orkuveitur og gengur vinna okkar við samningagerð við þær vel," segir Guðmundur F. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Envent.

„Orkusölusamningar eru jafnan mikilvægir áfangar í virkjunarverkefnum og á það einnig við hér. Með orkusölusamningnum er enn styrkari stoðum skotið undir verkefnið. Samhliða gerð fleiri orkusölusamninga, vinnum við nú að fjármögnun framkvæmdahluta verksins og gerum við ráð fyrir að sá áfangi taki 6 til 12 mánuði."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×