Viðskipti innlent

Samkeppnishæfi Íslands fellur um sex sæti

Samkeppnishæfni Íslands fellur um sex sæti í vísitölu Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) um samkeppnishæfni þjóða 2009-2010 en landið fer úr 20. sæti 2008-2009 í 26. sæti nú.

Sviss er samkeppnishæfasta hagkerfið og ýtir Bandaríkjunum niður í 2. sæti. Næst koma Singapor og Norðurlöndin Svíþjóð, Danmörk og Finnland en Noregur er í 14. sæti.

Í fréttatilkynningu frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands um málið segir að vísitala World Economic Forum um samkeppnishæfni er virtur mælikvarði á efnahagslíf 133 þjóða víða um heim. Vísitalan er mjög víðtæk og endurspeglar þá þætti sem segja til um framleiðni þjóða og vaxtarmöguleika.

Samkeppnishæfnivísitalan byggir á opinberum upplýsingum og könnun sem gerð er meðal stjórnenda í atvinnulífinu. Nýsköpunarmiðstöð Íslands er samstarfsaðili Alþjóðaefnahagsráðsins á Íslandi og sá um framkvæmd könnunarinnar í mars - maí síðastliðið vor.

Í skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins The Global Competitiveness Report 2009-2010 sem kemur út í dag er fjallað um stöðu Íslands. Í henni segir að fall Íslands í vísitölunni megi aðallega rekja til skorts á efnahagslegum stöðugleika, þar sem landið fer út 56. sæti í 119. sæti, og slæmu mati á þróunarstigi fjármálamarkaða, en þar fer Ísland úr 20. sæti í 85. sæti.

„Samt sem áður munu sterkar stoðir samkeppnishæfni landsins á lykilsviðum vonandi auðvelda bata og gera íslenska hagkerfinu kleift að jafna sig hraðar. Þannig getur Ísland reitt sig á fyrsta flokks menntunarkerfi á öllum stigum (2. sæti í heilsu og grunnmentun og 4. sæti í framhaldsmenntun og þjálfun), auk tiltölulega hás þróunarstigs viðskipta (23. sæti) þar sem tæknilegur viðbúnaður er tiltölulega mikill (14. sæti) og nýsköpun sömuleiðis (16. sæti). Mjög sveigjanlegur vinnumarkaður (6. sæti), skilvirkir innviðir (11. sæti) og sterkar stofnanir (13. sæti) styrkja jafnframt stöðu landsins," segir í skýrslunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×