Viðskipti innlent

Íbúðaverð lækkar meira en áður

Íbúðaverð hefur ekki lækkað jafnmikið milli mánaða á höfuðborgarsvæðinu síðan 1994.Fréttablaðið/Anton
Íbúðaverð hefur ekki lækkað jafnmikið milli mánaða á höfuðborgarsvæðinu síðan 1994.Fréttablaðið/Anton

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki áður lækkað jafnmikið milli mánaða og gerðist nú í mars frá því byrjað var að reikna vísitölu húsnæðisverðs árið 1994, að því er fram kemur í umfjöllun Greiningar Íslandsbanka.

Samkvæmt upplýsingum frá Fasteignaskrá Íslands lækkaði verðið um 3,8 prósent milli febrúar og mars.

„Húsnæðisverð hefur nú lækkað samfellt undanfarna átta mánuði um samtals 8,1 prósent,“ segir greiningardeildin og bendir á að frá því húsnæðisverðið náði hámarki haustið 2007 hafi það lækkað um 10 prósent að nafnvirði og 28 prósent að raunvirði.

Greiningardeildin segir þróunina ekki koma á óvart enda sé að baki uppsveifla sem drifin var áfram að stórum hluta af hækkun íbúðaverðs. Þá gæti áhrifa offramboðs íbúða og minni greiðslugetu kaupenda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×