Viðskipti innlent

Yfirtakan á Sparisjóðabankanum hefur engin áhrif á Byr

Yfirtaka FME á Sparisjóðabankanum mun ekki hafa áhrif á rekstur Byrs þar sem eign Byrs í Sparisjóðabankanum hafði þegar verið færð niður í uppgjöri Byrs fyrir árið 2008. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Byr þar sem ennfremur segir að sparisjóðurinn hafi ekki átt hlut í SPRON og því hefur yfirtaka hans ekki fjárhagsleg áhrif á Byr.

„Hugur starfsmanna Byrs er hjá starfsfólki SPRON og Sparisjóðabankans enda hafa samskiptin verið góð og ánægjuleg í gegnum tíðina. Starfsfólk Byrs vill koma á framfæri hlýjum kveðjum til starfsmanna fyrirtækjanna," segir einnig.

Yfirtakan á rekstri Sparisjóðabankans mun ekki hafa önnur áhrif á þjónustu Byrs en þá, að erlend greiðslumiðlun, færist til Seðlabankans og munu viðskiptavinir Byrs ekki verða fyrir neinum áhrifum af þessum aðgerðum. „Öll dagleg uppgjör og innlend greiðslumiðlun hefur nú um nokkurt skeið farið í gegnum Seðlabanka Íslands án milligöngu Sparisjóðabankans og verður því engin breyting þar á við þessa aðgerð," segir ennfremur.

Að lokum áréttar Byr að þrátt fyrir erfitt rekstrarár árið 2008 er lausafjárstaða sjóðsins góð og eiginfjárhlutfall innan tilskilinna marka, eða 8,3%. „Innlán jukust á árinu um 106% samfara fjölgun viðskiptavina og gerir rekstraráætlun Byrs 2009 ráð fyrir jákvæðri afkomu."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×