Viðskipti innlent

Gjaldeyrisforði Seðlabankans skreppur saman

Sigríður Mogensen skrifar

Gjaldeyrisforði Seðlabankans hefur skroppið saman um tugi milljarða á síðustu þremur mánuðum. Um helmingur forðans eru skammtímalán.

Gjaldeyrisforði Seðlabankans lækkaði um rúma 160 milljarða króna frá lok nóvember til lok febrúar, samkvæmt tölum sem Seðlabankinn birtir mánaðarlega. Mestan hluta af þessari lækkun má skýra með styrkingu krónunnar, en eftir að leiðrétt hefur verið fyrir gengisbreytingar má sjá að forðinn lækkaði um tæpa 30 milljarða á þessu tímabili. Þetta er staðreynd þrátt fyrir lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem átti að auka erlendan forða þjóðarinnar.

Hluti af þessari upphæð, eða 6 milljarðar króna, fóru á þessu tímabili í það að styrkja krónuna á gjaldeyrismarkaði, en viðskipti Seðlabankans á þeim markaði skýra í kringum þriðjung af heildarveltunni. Þess má geta að fyrir bankahrunið tók Seðlabankinn lítið sem engann þátt í gjaldeyrismarkaðnum.

Og það sem meira er: Helmingur af gjaldeyrisforðanum er á gjalddaga innan mánaðar. Með öðrum orðum er Seðlabankinn að rúlla á undan sér skammtímalánum til að halda uppi forðanum.

Að sögn Seðlabankans eru þessar hreyfingar á gjaldeyrisforðanum eðlilegar. Þá segir bankinn að það fari eftir túlkun hvort hægt sé að tala um að helmingur forðans sé skammtímalán.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×