Viðskipti innlent

Styðjast við upptökur vegna rannnsóknar á gjaldeyrisbraski

Ingimar Karl Helgason. skrifar

Upptökur af símtölum starfsmanna eru meðal gagna sem Fjármálaeftirlitið hefur fengið frá fjármálafyrirtækjum, við rannsókn mála. Þrír menn sem eru til rannsóknar hjá eftirlitinu, vegna gjaldeyrisbrasks, stofnuðu fyrirtæki í Lúxemborg, meðan þeir voru enn að störfum hjá Askar Capital.

Þrír karlmen voru leystir frá störfum hjá fjármálafyrirtækinu Askar Capital undir lok mars á þessu ári. Ástæðan var grunur um brot á lögum um gjaldeyrisviðskipti; og raunar, eftir því sem fréttastofa kemst næst; hugsanleg brot á hegningarlögum. Mál þeirra eru til rannsóknar hjá Fjármálaeftirlitinu.

Gjaldeyrisbrask mannanna virðist hafa hafist um mánaðamótin nóvember/desember í fyrra. Þeir eru grunaðir um að hafa notað nafn Askar Capital í viðskiptum sínum. Þeireir undirbjuggu á sama tíma eigin rekstur. Þeir stofnuðu í byrjun desember, meðan þeir störfuðu enn hjá Askar, félagið Capital Path Partners.

Samkvæmt skráningu í Lögbirtingablaði Lúxemborgar, stofnuðu þeir einnig þar sérstakt félag 16. desember, með sama heiti. Það virðist vera svonefnt skúffufyrirtæki; það er til húsa á sama stað og lögfræðistofa nokkur þarna í Lúx og tveir af þremur stjórnarmönnum eru lögmenn á stofunni.

Gjaldeyrisbrask virðist vera orðinn nokkur atvinnuvegur. Aðstoðarseðlabankastjóri sagði nýlega að ærinn fjárhagslegur hvati væri fyrir suma að fara í kringum gjaldeyrishöftin. Afleiðingar þess eru þó alvarlegar því ekki skilar sér sá gjaldeyrir sem hingað á að koma.

Fréttastofu er kunnugt um að meðal gagna sem Fjármálaeftirlitið skoðar vegna þessa Askar-málsins, séu upptökur eða uppskriftir af símtölum sem mennirnir áttu, úr borðsíma á skrifstofu sinni. Eftir því sem næst verður komist eru slík gögn til rannsóknar í fleiri málum sem Fjármálaeftirlitið og raunar einnig sérstakur saksóknari bankahrunsins og saksóknari efnahagsbrotadeildar hafa með höndum.

Heimildarmenn fréttastofa benda meðal annars á að upptökur símtala séu í mörgum tilvikum heimildir um tilurð tiltekinna viðskipta. Þá séu símtöl í sumum tilvikum höfuðsönnunargögn í málum sem varða markaðsmisnotkun og innherjasvik.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×