Viðskipti innlent

MP Banki opnaði netbanka sinn í dag

MP Banki opnaði í dag Netbanka MP þar sem viðskiptavinir bankans geta sinnt fjölbreyttum bankaviðskiptum auk þess að fylgjast með stöðu verðbréfasafna.

Í tilkynningu segir að MP Banki fékk viðskiptabankaleyfi í október 2008 og hefur stjórn bankans tekið ákvörðun um að útvíkka starfsemina með því að bjóða einstaklingum og smærri fyrirtækjum upp á almenna viðskiptabankaþjónustu.

Mikilvægur áfangi í þeirri uppbyggingu er opnun fullkomins netbanka sem unninn var í samstarfi við Teris og byggir á grunni heimabanka sparisjóðanna sem reynst hefur framúrskarandi vel undanfarin ár.

Ákvörðun var tekin um að velja Teris sem samstarfsaðila þegar MP Banki náði samkomulagi um að taka yfir útibúanet SPRON. Uppsetning netbankans hefur gengið bæði hratt og vel og samstarfið í heild sinni gengið afar vel.

Uppbygging viðskiptabankaþjónustu MP Banka mun að öðru leyti halda áfram undir merkjum SPRON og Netbankans - nb.is þegar samþykki Fjármálaeftirlits liggur fyrir og starfsemin getur hafist á ný.

Þar sem 10 ár eru liðin frá stofnun MP Banka var viðeigandi að Lára Grétarsdóttir og Björg Hauksdóttir sem hafa starfað hjá bankanum frá stofnun ásamt Margeiri Péturssyni, tækju netbankann formlega í notkun ásamt Sæmundi Sæmundssyni, forstjóra Teris.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×