Viðskipti innlent

Útflutningsráð skrifar undir Global Compact

Útflutningsráð nú skrifað undir Global Compact samkomulag Sameinuðu þjóðanna. Með því að skrifa undir samkomulagið skuldbindur Útflutningsráð sig til að taka þátt í umræðunni um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja á sínum vettvangi ásamt því að hvetja þau til þess að tileinka sér samfélagslega ábyrgð í starfsháttum sínum.

Í frétt um málið frá Útflutningsráði segir að samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja (CSR) hefur verið töluvert í umræðunni að undanförnu. Vilji til þess að taka ábyrgð og hafa yfirsýn yfir áhrif sín á atvinnulífið, samfélagið og umhverfi hefur færst í vöxt meðal fyrirtækja og stofnanna um allan heim.

Ísland er þar engin undantekning og hafa fyrirtæki í öllum atvinnugreinum orðið vör við að erlendir viðskiptavinir búast við því að fyrirtækin hafa yfirlýsta stefnu í samfélagsmálum. Útflutningsráð Íslands vill taka virkan þátt í þessari umræðu og hvetja íslensk útflutningsfyrirtæki til þess að innleiða samfélagslega ábyrgð sem gerir þau samkeppnishæfari á alþjóðavettvangi.

UN Global Compact er alþjóðleg yfirlýsing og samkomulag á vegum Sameinuðu þjóðanna sem fyrirtæki og stofnanir geta haft að leiðarljósi við innleiðingu ábyrgra starfshátta, óháð landi og atvinnugrein. Verkefnið fór af stað árið 2000 og hafa nú yfir 6.200 fyrirtæki og stofnanir í 130 löndum skrifað undir yfirlýsinguna og eru staðbundin tengslanet til staðar í yfir 80 löndum. Um 400 fyrirtæki á Norðurlöndunum hafa skrifað undir samkomulagið.

Aðild að GC samkomulaginu styður við bakið á fyrirtækjum og stofnunum sem leitast við að byggja upp ímynd sína og traust á erlendum mörkuðum. Með því að undirrita GC samkomulagið skuldbindur fyrirtæki eða stofnun sig til þess að vinna að framgangi tíu grundvallarviðmiða er varða samfélagslega ábyrgð. Verkefnið hentar bæði stórum og smáum fyrirtækjum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×