Viðskipti innlent

Fullyrðingar í auglýsingum Vodafone bannaðar

Neytendastofu barst erindi frá Símanum í október 2008 þar sem kvartað var yfir auglýsingum Vodafone á áskriftarleiðinni Vodafone Gull. Taldi Síminn auglýsingarnar brjóta gegn ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, þar sem í þær vanti mikilvægar upplýsingar og fram komi fyllyrðingar sem ekki séu réttar. Auglýsingarnar séu því bæði villandi gagnvar neytendum og ósanngjarnar í garð keppinauta.

Í erindi Símans er tiltekin fjöldi dæma um það sem fyrirtækið telur ósanngjarnt og ekki rétt í auglýsingum Vodafone. Meðal annars sé talað um að allt sé innifalið, símtöl í alla aðra síma, óháð kerfi - líka í GSM og til útlanda fyrir 3.490 krónur

Þá segir að sé verðskrá Vodafone skoðuð nánar megi sjá að tilboð og verð Vodafone séu ekki með þeim hætti sem auglýsingarnar gefi til kynna. Þau séu háð skilyrðum sem af auglýsingunum verði ekki ráðið að séu til staðar.

Í ákvörðunarorði Neytendastofu segir meðal annars að Vodafone hafi með því að tilgreina ekki í auglýsingum sínum að fast mánaðargjald heimasíma í áskriftarleiðinni Vodafone Gull sé háð skilyrðum, brotið gegn ákvæðum laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Neytendastofa telur að Vodafone hafi gerst brotlegt við umrædd lög í fimm skiptum. Þá segir að bannið taki gildi fjórum vikum frá dagsetningu ákvörðunarinnar.

Að þeim tíma liðnum skal Vodafone hafa fjarlægt fullyrðingar úr öllum auglýsingum og kynningarefni sínu. Verði ekki farið að banninu megi búast við því að tekin verði ákvörðun um sektir.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×